Sumarferð JÖRFÍ 2.-4. júlí

Sumarferð Jöklarannsóknafélagsins verður farin í Þórsmörk 2.- 4.júlí.  Skoðuð verða ummerkin um gosið við Fimmvörðuháls og í Eyjafjallajökli undir styrkri leiðsögn Jósefs Hólmjárn sem þekkir svæðið eins og lófann á sér.

Lagt verður af stað frá Select við Vesturlandsveg kl.19:00. Farið verður á eigin bílum og reynt að raða þeim sem ekki ráða yfir fararskjótum í laus sæti hjá öðrum. Samkvæmt upplýsingum frá Útivist er vegurinn í Þórsmörk í ágætu standi og fær venjulegum jeppum en talsvert vatn við Gígjökullinn.

Á laugardeginum verður gengið upp að nýju gígunum við Fimmvörðuháls. Gera má ráð fyrir að ferðin taki 6-8 tíma.  Grillað saman um kvöldið.  Á sunnudeginum verða skoðaðar breytingarnar sem orðið hafa við Gígjökulinn eftir gosið og hlaupin úr Eyjafjallajökli.

Gist verður í tjöldum í Strákagili en þar er prýðileg aðstaða.  Þeir sem vilja vera í skála verða sjálfir að sjá um að panta gistingu hjá Útivist.

Nánari upplýsingar og skráning er hjá Ágústi Hálfdánssyni (894-5257) eða á sumarferd(hjá)gmail.com.

Mælt á Mýrdalsjökli

Uppstigningardagur var haldinn hátíðlegur á Mýrdalsjökli þegar vetrarákoma jökulsins var mæld. Myndarlegur hópur félaga JÖRFÍ hélt snemmdegis á jökulinn og boruðu þar þrjár afkomuholur jafnframt sem reynt var að leggja mat á öskudreifinguna á jöklinum frá gosinu í Eyjafjallajökli. Mikil aska var syðst á jöklinum en minnkaði heldur eftir því sem norðar dró en jökulinn var mjög ósléttur og ferðin sóttist seint. Að jafnaði mældist vetrarákoman um 20-30% minni en síðustu ár. Síðasti hluti hópsins var kominn aftur í bæinn eftir nær 20 klukkustunda ferð.

Hluti hópsins á Mýrdalsjökli (mynd: Hálfdán Ágústsson).

Hluti hópsins á Mýrdalsjökli (mynd: Hálfdán Ágústsson).

Á leid á jökul (mynd: Marius O. Jonassen)

Á leid á jökul (mynd: Marius O. Jonassen)

Fréttabréf maí 2010

Eitthundraðastaogsautjánda fréttabréf Jöklarannsóknafélagsins hefur nú litið dagsins ljós og má nálgast hér.

Meðal efnis:
Eldgos í Eyjafjallajökli
Stækkun nýja-skála í Jökulheimum
Skipulagning slóða við Jökulheima
Sumarferð í Þórsmörk
Af aðalfundi í febrúar sl.
60 ára afmælishátíð JÖRFÍ á haustdögum

5vh_2010_mtg

                                                                Mynd: MTG

Vorfundur JÖRFÍ 11. maí

eyjafjj_2010_mtg

                                                              Mynd: MTG

Vorfundur Jöklarannsóknafélags Íslands verður haldinn þriðjudaginn 11.maí 2010 kl. 20 í sal 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands.

Sigrún Hreinsdóttir og Magnús Tumi Guðmundsson flytja erindi í máli og myndum um umbrotin í Eyjafjallajökli undanfarið.

Nánar um fundinn og félagsmál í nýútkomnu fréttabréfi sem má nálgast hér.

 

 

Ráðstefna til heiðurs Sigfúsi Johnsen jöklafræðingi

Athygli er vakin á ráðstefnu til heiðurs Sigfúsi Johnsen jöklafræðingi sem haldin verður í lok ágúst næstkomandi  í tilefni af 70 ára afmæli Sigfúsar. Áður var ráðgert að halda ráðstefnuna í lok apríl en henni frestað vegna áhrifa eldgoss í Eyjafjallajökli á samgöngur.

Sigfús Johnsen eðlis- og jöklafræðingur við Hafnarháskóla er einn af kunnustu vísindamönnum Íslendinga um þessar mundir. Hann hefur starfað að borunum og rannsóknum á ískjörnum úr Grænlandsjökli um 40 ára skeið og hafa þær skilað einstökum niðurstöðum um loftslagssögu Norðurhvels Jarðar sl. 125.000 ár.

Ráðstefnan er skipulögð í sameiningu af Háskóla Íslands, Kaupmannahafnarháskóla, Veðurstofu Íslands og Dansk-íslenska félaginu.