Vorfundur, nýtt fréttabréf og breytt GJÖRFÍ-ferð

Vorfundur Jöklarannsóknafélagsins verður haldinn næstkomandi þriðjudag, 30. apríl í Öskju. Nánar um fundinn í nýútkomnu fréttabréfi JÖRFÍ sem aðgengilegt er hér á vef félagsins.

Sama þriðjudag mun GJÖRFÍ jafnframt ganga um Öskjuhlíðina í stað þess að ganga á Keili. Brottför er kl. 18 frá Nauthól og gengið verður í um klukkustund um Öskjuhlíðina. GJÖRFÍ-liðar ætla því næst að snæða kvöldverð á Nauthól áður en þeir halda á vorfund Jöklarannsóknafélagsins í Öskju.

Ferð fellur niður

Fyrirhuguð skíðagönguferð GJÖRFÍ laugardaginn 6. október fellur niður.

Sigurðarvaka – Útgáfutónleikar í Hannesarholti

Fimmtudagskvöldið 21. mars, kl. 20 verður fjölbreytt söngvaka í salnum í Hannesarholti á Grundarstíg 10. Þar flytur hópur söngfólks og tónlistarmanna söngva í tilefni af útgáfu albúmsins Kúnstir náttúrunnar (CD- og DVD-diskur), en útgáfan er helguð aldarafmæli Sigurðar Þórarinssonar á síðastliðnu ári. Útgefendur albúmsins standa að dagskránni ásamt menningarmiðstöðinni Hannesarholti.

Aðgangseyrir er kr. 2.000 – Aðgöngumiða þarf að panta á netfanginu „songvaka hjá gmail.com“. Staðfesting á pöntun berst síðan í tölvupósti. Athugið að salurinn rúmar aðeins liðlega 60 manns og því mikilvægt að panta tímanlega. Miðar eru síðan greiddir við innganginn rétt fyrir tónleikana.

Meginuppistaðan í dagskránni verður þessi:

1) Hópurinn flytur söngvísur við ljóðaþýðingar og frumsamda texta Sigurðar. Gerð verður stuttlega grein fyrir útgáfunni og tilurð söngvísnanna.

2) Edda Þórarinsdóttir og tríóið Pálsson flytja nokkra söngva, þar á meðal einn sem er á fyrrnefndum hljómdiski.

3) Flutt verða þekkt sönglög við ljóð Hannesar Hafstein. Hér er vel þegið að gestir kvöldsins taki undir.

Flytjendur verða: Árni Björnsson, Björgvin Gíslason, Edda Þórarinsdóttir, Elín Ýrr Agnarsdóttir, Gunnar Guttormsson, Halldór Ólafsson, Kristján Hrannar Pálsson, Magnús Pálsson, Njáll Sigurðsson, Oddur Sigurðsson, Páll Einarsson, Reynir Jónasson og Rúnar Einarsson.

Í hléi geta tónleikagestir fengið sér kaffi eða te. Einnig gefst þá kostur á að kaupa fyrrnefndan safndisk.

Ráðstefna Surtseyjarfélagsins

Eftirfarandi tilkynning barst frá Surtseyjarfélaginu:

Surtseyjarfélagið ásamt fleiri aðilum standa að 50 ára afmælis- og vísindaráðstefnu Surtseyjar í Reykjavík dagana 12.-15. ágúst 2013. Um verður að ræða opna, alþjóðlega ráðstefnu. Opnað var fyrir skráningu á ráðstefnuna þann 15. febrúar og mun forskráning á afsláttargjaldi standa til 1. apríl. Síðustu forvöð til að senda inn útdrátt er 1. maí. Allar upplýsingar um ráðstefnuna má nálgast í gegnum heimasíðu Surtseyjarfélagsins (www.surtsey.is).

Þótt aðalefni ráðstefnunnar verði umfjöllun um eldfjallaeyjar þá verður sjónarhornið víðara og rúm fyrir rannsóknir er tengjast m.a. einangrun, þróun, landnámi og framvindu á landi, í hafi og vötnum. Áhugasamir eru hvattir til þátttöku í ráðstefnunni og til að kynna þar rannsóknir sínar með erindum eða á veggspjöldum.
Í kjölfar ráðstefnunnar verða gefin út sérhefti með greinum frá henni. Boðið verður upp á að birta greinar í ritinu BioGeoSciences og Surtsey Research (sjá nánar í kynningarbréfi á vef Surtseyjarfélagsins).

Nýtt fréttabréf og aðalfundur

Nýtt fréttabréf Jöklarannsóknafélagsins er komið út og er aðgengilegt hér.

Aðalfundur félagsins verður haldinn í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskólans þriðjudaginn 26. febrúar kl. 20. Að loknum aðalfundarstörfum segir Ólafur Ingólfsson frá jöklunarsögu Svalbarða og Barentshafs.

Á aðalfundinum verður jafnframt til sölu nýútgefinn hljóð- og mynddiskur í tilefni þess að Sigurður Þórarinsson hefði orðið 100 ára á nýliðnu ári. Upplýsingar um útgáfuna og hvernig má nálgast diskinn eru á vefsíðu sem vísað er í hér til hægri og í nýútkomnu fréttabréfi.