Ráðstefna Surtseyjarfélagsins

Eftirfarandi tilkynning barst frá Surtseyjarfélaginu:

Surtseyjarfélagið ásamt fleiri aðilum standa að 50 ára afmælis- og vísindaráðstefnu Surtseyjar í Reykjavík dagana 12.-15. ágúst 2013. Um verður að ræða opna, alþjóðlega ráðstefnu. Opnað var fyrir skráningu á ráðstefnuna þann 15. febrúar og mun forskráning á afsláttargjaldi standa til 1. apríl. Síðustu forvöð til að senda inn útdrátt er 1. maí. Allar upplýsingar um ráðstefnuna má nálgast í gegnum heimasíðu Surtseyjarfélagsins (www.surtsey.is).

Þótt aðalefni ráðstefnunnar verði umfjöllun um eldfjallaeyjar þá verður sjónarhornið víðara og rúm fyrir rannsóknir er tengjast m.a. einangrun, þróun, landnámi og framvindu á landi, í hafi og vötnum. Áhugasamir eru hvattir til þátttöku í ráðstefnunni og til að kynna þar rannsóknir sínar með erindum eða á veggspjöldum.
Í kjölfar ráðstefnunnar verða gefin út sérhefti með greinum frá henni. Boðið verður upp á að birta greinar í ritinu BioGeoSciences og Surtsey Research (sjá nánar í kynningarbréfi á vef Surtseyjarfélagsins).

Nýtt fréttabréf og aðalfundur

Nýtt fréttabréf Jöklarannsóknafélagsins er komið út og er aðgengilegt hér.

Aðalfundur félagsins verður haldinn í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskólans þriðjudaginn 26. febrúar kl. 20. Að loknum aðalfundarstörfum segir Ólafur Ingólfsson frá jöklunarsögu Svalbarða og Barentshafs.

Á aðalfundinum verður jafnframt til sölu nýútgefinn hljóð- og mynddiskur í tilefni þess að Sigurður Þórarinsson hefði orðið 100 ára á nýliðnu ári. Upplýsingar um útgáfuna og hvernig má nálgast diskinn eru á vefsíðu sem vísað er í hér til hægri og í nýútkomnu fréttabréfi.

Gönguferðir GJÖRFÍ

Gönguferðir GJÖRFÍ, gönguhóps Jöklarannsóknafélagsins, eru á allra færi og eru að jafnaði farnar annan hvern þriðjudag kl. 18:00. Í forsvari fyrir hópnum eru Ástvaldur Guðmundsson, Jósef Hólmjárn og Þóra Karlsdóttir. Dagskráin fram á sumarið er hér að neðan. Munið ennisljósin og gönguskíðin eftir því sem við á!

Dags. Áfangastaður Brottför
5. feb. Kársnes Nesti Fossvogi
19. feb. Elliðaárdalur Félagsheimili
5. mars Bláfjöll Shell Vesturlandsvegi, skíðaganga
19. mars Rauðhólar Shell Vesturlandsvegi
6. apríl Auglýst síðar Skíðaganga, brottför kl. 10 á laugardegi
16. apríl Hvaleyrarvatn N1 við lækinn í Hafnarfirði
30 apríl Keilir N1 við lækinn í Hafnarfirði
18. maí Suðurstrandarv. Nesti Fossvogi kl. 10 á laugardegi
28. maí Úlfarsfell Shell Vesturlandsvegi
11. júní Viðey Sundahöfn, tímasetning auglýst síðar
Sumarfrí
20. ágú. Helgufoss Shell Vesturlandsvegi