Vorfundur og opnun jöklavefsjár
Sunnudaginn 20. mars kl.14 verður ný Jöklavefsjá (islenskirjoklar.is) opnuð í stjörnuverinu í Perlunni. Helgi Björnsson og Oddur Sigurðsson jöklafræðingar opna Jöklavefsjána en auk þeirra munu sérfræðingar Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskólans og Landsvirkjunar fjalla um jöklamælingar, sýna ljósmyndir af jöklum og fara yfir virkni vefsjárinnar og gögn sem hún sýnir. Að kynningum loknum mun Hilmar Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands bjóða gestum á sýningu safnsins, Vatnið í náttúru Íslands, og sérsýningu um sögu Jöklarannsóknafélagsins. Viðburðurinn tvinnar saman vorfund JÖRFÍ og síðbúna opnun á sýningunni í Dropanum um sögu JÖRFÍ sem sett var upp í tilefni af 70+1 ára afmæli félagsins síðastliðið haust.
Sjá Opnun nýrrar jöklavefsjár | Facebook
Jöklavefsjáin birtir mælingar og yfirlit um rannsóknir og breytingar á íslenskum jöklum, þar á meðal sporðamælingar og gögn um útbreiðslu og afkomu jöklanna. Vefsjáin birtir einnig fjölmargar ljósmyndir frá mismunandi tímum. Samanburðarljósmyndir sem teknar eru á sama stað með sama sjónarhorni sýna skýrt breytingarnar sem eru að verða á íslensku jöklunum með sívaxandi hraða. Jöklavefsjáin er samstarfsverkefni Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskólans, Landsvirkjunar, JÖRFÍ, Landmælinga Íslands og Náttúrustofu Suðausturlands. Hægt er að nálgast mæligögn og athuganir sem safnað er með reglubundnum hætti af innlendum stofnunum, fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum. Gagnasafnið verður uppfært jafnharðan og nýjar mælingar eru gerðar.