Vefmyndavél á Grímsfjall

Í byrjun vikunnar fóru að berast myndir úr vefmyndavél (http://vedur2.mogt.is/grimsfjall/webcam/index.php) á vesturgafli gamla skálans á Grímsfjalli en myndavélin horfir út yfir Grímsvötn. Björn Oddsson hefur átt veg og vanda af uppsetningu vélarinnar en að henni koma auk Jöklarannsóknafélagsins, Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Neyðarlínunnar og M&T ehf.

Svona var umhorfs á Grímsfjalli 31. mars 2014.

Fyrirhugað er að koma upp annarri vefmyndavél til viðbótar á Grímsfjalli en Vinir Vatnajökuls veittu myndarlegan styrk til kaupa á henni. Þá verða alls fjórar vel staðsettar vefmyndavélar í rekstri á Vatnajökli en þegar eru tvær vefmyndavélar í Kverkfjöllum (http://vedur2.mogt.is/kverkfjoll/webcam/) en Vinir Vatnajökuls styrktu kaup á þeim. Kverkfjallavélarnar eru enn huldar klakabrynju en myndir frá þeim munu berast að nýju er líða tekur betur á vorið.

Horft til norðvesturs frá Kverkfjöllum 29. ágúst 2013. Sandstormur er á aurum Dyngjujökuls.