Jöklar eru mikilvægur hluti íslenskrar náttúru. Heildarflatarmál er nálægt 11 þúsund ferkílómetrum og um 20% af virku gosbeltunum liggur undir jökli. Vatnajökull er langstærsti jökull Íslands, rúmlega 8000 km2, Hofsjökull og Langjökull eru hvor um sig rúmlega 900 km2 að stærð og Mýrdalsjökull tæplega 600 km2. Aðrir jöklar eru töluvert minni.
Sögulegt yfirlit
Þórður Þorkelsson Vídalín (1662-1742), sem var starfaði lengst af sem læknir en var um tíma skólameistari í Skálholti, skrifaði ritgerð um íslenska jökla á latínu árið 1695. Fræðileg þekking var skammt á veg komin á þessum tíma og ber ritgerðin þess merki. Þórðarhyrna (1659 m) í vestanverðum Vatnajökli er nefnd eftir honum. Sveinn Pálsson (1762-1840) gerði merkar athuganir á náttúru Íslands og skrifaði sérstakt jöklarit. Þar lýsir hann jöklunum af vísindalegri nákvæmni. Hann var fyrstur manna í heiminum að setja fram þá skoðun að jöklar skriðu fram sem deigur massi. Því miður var Jöklaritið ekki gefið út fyrr en 1882, tæpri öld eftir að það var skrifað svo hugmyndir Sveins voru lengst af ókunnar öðrum náttúrufræðingum. Einstaka leiðangrar könnuðu jökla á 19. öld og fyrstu áratugum 20. aldar. Um 1930 hófust sporðamælingar Jóns Eyþórssonar (1895-1968). Upphaf skipulegra rannsókna á jöklum er hinsvegar oft tengt Sænsk-Íslenska leiðangrinum sem kannaði afkomu á austanverðum Vatnajökli á árunum 1936-1938. Leiðangurstjórar voru Hans W:son Ahlmann og Jón Eyþórsson. Meðal þátttakenda var Sigurður Þórarinsson (1912-1983), þá ungur landfræðinemi. Það kom í hlut Sigurðar að vinna úr rannsóknunum og birta niðurstöður þeirra. Hann sinnti jöklarannsóknum meðfram öðrum rannsóknum æ síðan. Næsta tilraun til skipulegra jöklarannsókna á Íslandi var 1942-1946 undir forystu Steinþórs Sigurðssonar en hann var á þessum árum framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs Ríkisins. Þær rannsóknir voru á Vatnajökli og Mýrdalsjökli en ekki varð framhald á þeim eftir dauða Steinþórs í Heklugosinu 1947.
Jöklarannsóknafélagið var stofnað haustið 1950. Vorið eftir var farinn stór leiðangur á Vatnajökul í samvinnu við Franska vísindamenn. Verkefni Fransk-Íslenska leiðangursins var að mæla þykkt Vatnajökuls með endurkastsmælingum. Enn var Jón Eyþórsson leiðangursstjóri en aðrir íslenskir þátttakendur voru Sigurjón Rist og Árni Stefánsson. Leiðangurinn var á jöklinum í 5 vikur og náðist góður árangur þar sem fyrstu upplýsingar fengust um þykkt íssins víða á jöklinum. Mælingar voru hinsvegar það gisnar að lítið var hægt að segja um landslag undir jöklinum; upplýsingar um það komu síðar með íssjármælingum á 8.-10. áratug 20. aldar.
Staða rannsókna
Í dag eru jöklarannsóknir hér á landi stundaðar af Jarðvísindastofnun Háskólans, Vatnamælingum, Landsvirkjun og fleiri aðilum. Botn allra stærri jöklanna hefur verið kannaður með íssjármælingum og grundvallar upplýsingar fengist um eldfjöll, öskjur og önnur landform undir þeim. Afkoma Hofsjökuls, Langjökuls og Vatnajökuls hefur verið mæld reglulega um árabil. Umfangsmiklar mælingar á tengslum veðurs og afkomu hafa farið fram. Þær mælingar hafa m.a. verið hagnýttar í líkönum af viðbrögðum jöklanna við loftslagsbreytingum. Fylgst hefur verið með framhlaupum, jökulhlaup könnuð og áhrif jarðhita og eldgosa á jöklana rannsökuð. Rannsóknir á jöklaseti fyrir framan jöklana eru stundaðar bæði af innlendum og erlendum aðilum.
Auk eiginlegra jöklarannsókna fara fram umfangsmiklar rannsóknir á eldfjöllum undir jöklum. Hætta á jökulhlaupum og gjóskugosum veldur því að margir eiga töluvert undir því að virkt eftirlit sé með Kötlu, Grímsvötnum og fleiri eldfjöllum. Vöktun er einkum á hendi Veðurstofunnar og Vatnamælinga auk aðkomu Jarðvísindastofnunar. Rannsóknir á eldfjöllunum og eldvirkninni eru mikið stundaðar á Jarðvísindastofnun en allir ofangreindir aðilar koma að þeim. Jöklarannsóknafélagið hefur gegnt lykilhlutverki í rannsóknum á Grímsvötnum og hýsir einnig jarðskjálftamæla og síritandi GPS landmælingatæki í skálum sínum á Grímsfjalli.
Rannsóknir hafa verið drjúgur hluti umsvifa á Vatnajökli síðustu áratugi. Fullyrða má að umfang rannsókna muni aukast á næstu árum. Fjöldi erlendra vísindamanna sem starfa með einum eða öðrum hætti við rannsóknir á jöklinum eða við hann fer mjög vaxandi.