Yfirlit yfir fréttir og færslur skrifaðar á vef félagsins

Nothing Found

Sorry, no posts matched your criteria

Árshátíð JÖRFÍ laugardaginn 8. nóvember 2008

Lagt verður upp frá nágrenni Select við Vesturlandsveg, hvar Ölgerð Egils Skallagrímssonar býður til fordrykkjar í húsakynnum sínum stundvíslega kl. 17.30. Að þeirri stund lokinni verður haldið með langferðabíl á vit ævintýranna þar sem okkar bíður veislumatur og dansiball með lifandi tónlist í þéttbýli innan Stór-Kópavogssvæðisins…

Fólk ber ábyrgð á eigin veigum til hátíðarhaldanna sem koma má fyrir í til þess ætluðum álkistum sem verða til reiðu í fjallabílum fyrir utan Ölgerðina. Fyrir þá sem velja léttvín, gæti hvítvín verið viðeigandi.

Miðinn kostar 4.500,- íslenskar nýkrónur og fæst í Öskju (hjá Hrafnhildi: 849-7824 eða Finni: 525-4936), á Dalbrautinni (hjá Valda rakara: 568-6312) og í Orkugarði (hjá Hálfdáni veðurfréttamanni: 865-9551).

Árshátíð 2008

  • Forsmekkurinn að myndagetrauninni: Hvaða jöklamælingamenn eru á myndinni og hvenær er hún tekin?

Haustfundur JÖRFÍ 2008

Haustfundur Jöklarannsóknafélags Íslands verður haldinn 21.október næstkomandi klukkan 20:00 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands.

Erindi: „Grímsvatnagosið 2004: Gjóska, útbreiðsla og upphleðsla í Grímsvötnum.“ Björn Oddsson.

Myndasýning: Breytingar á Grímsvötnum á undanförnum árum. Magnús Tumi Guðmundsson.

Haustannir á Grímsfjalli

Síðustu viku septembermánaðar dvöldust fimm vísindamenn frá Edinborgarháskóla á Grímsfjalli. Tilgangurinn var að æfa notkun radartækja sem lesa ís og öskulög í jökli sem og jökulbotn og hugsanlega ísbráð neðanfrá. Hlynar tveir, félagar í JÖRFÍ voru fylgdar og aðstoðarmenn Edinborgara á tveimur bílum, Jöklarauð JÖRFÍ og jeppa Hlyns Snæland.

Í upphafi leiðangurs olli flughálka á Skálafellsjökli nokkrum töfum eða allt þar til Bjarni „jöklabóndi“ Skarphéðinsson hafði með snjótroðara sínum opnað leiðangurstækjum braut í gegnum sprunguhaft á jöklinum. Ökufæri var með mestu ágætum eftir það. Degi tvö var eytt í „sovéti“ á Grímsfjalli en á laugardagsmorgni hafði lægt og rofað nægilega til svo að hægt væri að stika út línu yfir annan ketilinn í norðuröskju Grímsvatna. Þennan dag og næstu tvo voru gerðar radarmælingar á katlinum en seinnipart mánudags var svo pakkað saman og haldið til byggða og var sú ferð tíðindalaus.

Á vatnajökli við radarmælingar með Bretum í september 2008

Á sama tíma stóð yfir haustmælingaferð LV og Raunvísindastofnunar og voru þáttakendur í henni fjórir. Allt valinkunnir Jöklafélagsjaxlar. Heldur gerði norðangarri og snjókoma mönnum lífið leitt í þeim leiðangri sem gekk þó stóráfallalaust.

Hlynur Skagfjörð Pálsson