Hér að neðan er ýmis fróðleikur um jökla sem tekinn hefur verið saman af
Helga Björnssyni og Hrafnhildi Hannesdóttur
FRAMHLAUP JÖKLA
Hraði jökuls getur verið um 10 cm/dag eða 30 m á ári. Hins vegar taka sumir jöklar skyndilega á rás og hlaupið hratt fram svo mánuðum skiptir. Hraðinn getur þá hundraðfaldast.
Framhlaup jökla verða vegna óstöðugleika í ísflæði, sem veldur því að mikill ísmassi getur á stuttum tíma flust frá svæði ofarlega á jökli og að jökuljöðrum. Við framhlaup berst mikill ís frá safnsvæði niður á sporð, jökull springur og mikið vatn flæðir út við jaðar.
Þeir jöklar sem hlaupa fram hreyfast ekki nægilega hratt til þess að bera fram jafnóðum snjó sem á þá safnast. Þeir verða því stöðugt brattari með hverju ári.
Framhlaup jökla eru algeng hér á landi og hlaupa allir skriðjöklar Vatnajökuls nema daljöklarnir sem falla austur af honum.
SPRUNGUR
Sprungur myndast þegar tog rífur ísinn. Sprungur myndast þvert eftir jökulbungu þegar ísinn fer yfir ójöfnur í botni. Efsta sprungan getur verið varasöm ef gengið er niður jökulinn því að komið er að henni áður en sér fram af bungunni. Yfir hömrum eru ísfossar eða falljöklar. Jökulgap myndast við hamraþili ofan við jökulinn þar sem jökullinn losnar frá bergstálinu.
Þegar jökull skríður með fjallshlíð rifnar hann vegna núningsmótsstöðu svo að sprungur stefna um 45° upp á við frá hlíðinni. Nái sprungur frá báðum hliðum saman á miðjum jökli eru þær skeifulaga. Langsprungur myndast þegar jökull breiðir úr sér á láglendi.
Sprungur eru venjulega ekki dýpri en 20-30 m. Á því dýpi pressast ísinn saman undan eigin fargi. Dýpstar eru þær yfir kröppum ójöfnum og hættulegastar þegar þær leynast undir snjó á safnsvæðinu eða nýföllnum vetrarsnjó.
JÖKLAR Á ÍSLANDI
Ísland liggur á mörkum hlýrra og kaldra strauma í lofti og hafi. Landið er hálent og jöklar stórir. Jöklar á Íslandi sitja á hæstu og úrkomumestu svæðum landsins. Nánast allar gerðir jökla eru á Íslandi, frá hvilftarjöklum til jökulhvela og þeir eru allir þíðir. Úthafsloftslag á Íslandi veldur því að afkoma jökla er mjög háð breytingum í lofthita. Jöklar þekja um 10% af flatarmáli Íslands og taka við 20% af þeirri úrkomu sem fellur á landið. Þeir hylja virkar eldstöðvar, jarðhitasvæði og lón. Íslenskir jöklar eru flokkaðir sem þíðir. Þeir bregðast hratt við loftslagsbreytingum, ýmist ganga fram eða hörfa. Jöklarnir geyma ís og vatn sem myndar stærstu ár landsins. Þeir eru mjög virkir, hlaupa fram og jökulhlaup koma frá jarðhitasvæðum og vegna eldgosa undir jökli. Vegna áhrifa þeirra á umhverfið hefur áhugi manna á jöklum og atburðum tengdum þeim löngum verið mikill.