Ráðstefna JÖRFÍ og JFÍ á Efri-Vík

Í október er fyrirhuguð ferð og ráðstefna í Efri Vík í Landbroti sem sumir félagsmenn hafa efalaust áhuga á.  Ferðin er farin á vegum Jarðfræðafélags Íslands og Jöklarannsóknafélagsins. Heiðursgestur ferðarinnar og ráðstefnunnar er Helgi Björnsson jöklafræðingur, heiðursfélagi JÖRFÍ og fyrrverandi formaður félagsins, en hann verður 70 ára þann 6. desember næstkomandi.

Um er að ræða helgarferð þar sem bæði verður farið í áhugaverðar skoðunarferðir og einnig verður félögum boðið upp á að halda og hlusta á fyrirlestra. Ferðin verður farin 5.-7. október.

Ekið verður sem leið liggur á föstudegi að Hótel Laka við Kirkjubæjarklaustur, með smá útidúrum á leiðinni. Á laugardagsmorgni verður boðið upp á fyrirlestra milli 9 og 12 og eftir hádegi haldið að Skeiðarárjökli. Á sunnudeginum verður boðið upp á fyrirlestra milli 9 og 12 og síðan haldið sem leið liggur til Reykjavíkur og áhugaverðir staðir skoðaðir.

Félögum í JFÍ og JÖRFÍ er boðið að halda fyrirlestra og senda inn veggspjöld en þema ferðarinnar/ráðstefnunnar eru jöklar, landmótun jökla, eldvikni, jökulhlaup, gróðurrannsóknir, samspil mannlífs og jökla, m.a. vegagerð. Bent er á að fjöldi fyrirlestra er takmarkaður þannig að fyrstur kemur fyrstur fær. Fyrirhugað er að gefa út ágripahefti og þurfa ágrip að berast í síðasta lagi miðvikudaginn 26. september.

Áætlað er að ráðstefnan kosti um 25-30.000 kr á mann (nokkuð meira ef um eins manns herbergi er að ræða). Innfalið í ráðstefnugjaldinu gisting og fullt fæði, en JFÍ og JÖRFÍ munu sjá þátttakendum fyrir ferðum til og frá Reykjavík og margvíslegu fleira ánægjulegu.

Síðasti dagur skráningar í ferðina er miðvikudagurinn 26. september en skráningar ber að senda til Þorsteins Sæmundssonar, formanns JFÍ (steini@nnv.is).