Pétur Þorleifsson, heiðursfélagi JÖRFÍ, 2. júlí 1933 – 6. janúar 2021

Mánudaginn 25. janúar, voru borin til grafar hjónin Guðbjörg Jóna Hjálmarsdóttir og Pétur Þorleifsson.  Pétur var fjalla- og jöklamaður og heiðursfélagi í Jöklarannsóknafélaginu.  Þau létust með 10 daga millibili en bæði áttu við vanheilsu að stríða síðustu misserin.  Pétur var fæddur 1933 og því á 88. aldursári þegar hann lést.  Hann var allra manna víðförlastur og fróðastur þegar kom að íslenskum fjöllum og skrifaði m.a. tvær vinsælar bækur um gönguleiðir á fjöll, aðra í samvinnu við Ara Trausta Guðmundsson.  Pétur fór margar jöklaferðir, gekk á skíðum um jökla, ferðaðist lengi á vélsleðum og átti hlut í snjóbíl á 7. áratug síðustu aldar.  Pétur sat um tíma í stjórn félagsins, beitti sér fyrir byggingu fjallaskála á háfjöllum og átti stærstan þátt í að velja skálum félagsins við Fjallkirkju í Langjökli og á Goðahnjúkum austast á Vatnajökli stað.  Þessir skálar hafa aldrei verið fjölsóttir en skálastæðin eru einhver þau fallegustu sem um getur á Íslandi.  Pétur var gerður að heiðursfélaga í Jöklarannsóknafélaginu á sextíu ára afmæli þess árið 2010, fyrir mikið framlag sitt til jöklaferða og könnunar.    

Jöklarannsóknafélagið minnist Péturs með hlýhug og þakklæti fyrir vel unnin störf og mikilsvert framlag um áratugi. 

Myndirnar eru úr vorferðinni 2004. Stóra myndin sýnir Pétur, sólbrunninn en glaðan í bragði í Jökulheimum í lok ferðar. Á efri myndinni til hægri er hann að koma upp á Hvannadalshnjúk. Neðri myndin er tekin á Jörfa, hæsta tindi Kverkfjalla. Pétur er lengst til vinstri. Honum á hægri hönd eru Guðrún Thorstensen, Magnús Hallgrímsson, Hlíf Ólafsdóttir, Leifur Jónsson og Inga Árnadóttir.