Nothing Found
Sorry, no posts matched your criteria
Sorry, no posts matched your criteria
Minnt er á sumarferð Jöklarannsóknafélagsins helgina 4.-6. júlí nk. Ekið verður í tjaldstað í Reyðarfellsskógi í landi Húsafells að kvöldi föstudagsins. Að morgni laugardags verður raðað í bíla og ekið upp á Kaldadal. Gengið verður frá Kaldadalsvegi upp á Okið og er vegalengdin um 5 km með rólegri hækkun frá 700 m upp í um 1100 m hæð. Staðnæmst verður við Blávatn í toppgíg Oksins og athugaðar leifar Okjökulsins, sem nú er að hverfa. Síðan verður gengið norður af með útsýni yfir innstu byggðir Borgarfjarðar og neðstu tungur Hallmundarhrauns, auk þess sem Eiríksjökull og Langjökull munu blasa við ef vel viðrar. Komið verður í tjaldstað síðla dags og má áætla að gangan verði samtals 18 km. Um kvöldið verður slegið upp grillveislu í tjaldstað. Á sunnudeginum verður ekin fáfarin jeppaslóð til vesturs meðfram Reykjadalsá og ef tími vinnst til mætti einnig skoða nýja sýningu um Snorra Sturluson í Reykholti. Fararstjóri ferðarinnar verður Þorsteinn Þorsteinsson en Hálfdán Ágústsson aðstoðar við skráningu: í netfanginu sumarferd(hjá)gmail.com eða í síma 8659551. Frekari upplýsingar birtast hér á vefsíðu félagsins er nær dregur.
Myndin hér að neðan sýnir Oköxlina séða frá Reykholtsdal 1. júní sl. Rauðsgil er fyrir miðri mynd. Allmikill snjór er enn ofan við 500 m hæð og verður fylgst með leysingu á svæðinu á næstu vikum. Ekki er ástæða til að ætla annað en að áætluð gönguleið verði greiðfær orðin snemma í júlí, en líklegt er að ganga þurfi yfir skafla hér og hvar.
Vorfundur Jöklarannsóknafélagsins verður haldinn næstkomandi þriðjudag, 6. maí í Öskju. Á fundinum flytur Helgi Björnsson erindi um leit að týndum flugvélum á Grænlandsjökli og Sverrir Hilmarsson sýnir myndir frá Suðurskautslandinu. Nánar um fundinn í nýútkomnu fréttabréfi JÖRFÍ sem aðgengilegt er hér á vef félagsins: „Fréttabréf apríl 2014“.
Jafnframt bendum við á að fyrirhuguð GJÖRFÍ-ferð næstkomandi laugardag, 3. maí, fellur niður. Jafnframt hafa verið gerðar tvær breytingar á GJÖRFÍ-dagskrá sumarsins, 10. júní og 19. ágúst.
Í byrjun vikunnar fóru að berast myndir úr vefmyndavél (http://vedur2.mogt.is/grimsfjall/webcam/index.php) á vesturgafli gamla skálans á Grímsfjalli en myndavélin horfir út yfir Grímsvötn. Björn Oddsson hefur átt veg og vanda af uppsetningu vélarinnar en að henni koma auk Jöklarannsóknafélagsins, Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Neyðarlínunnar og M&T ehf.
Svona var umhorfs á Grímsfjalli 31. mars 2014.
Fyrirhugað er að koma upp annarri vefmyndavél til viðbótar á Grímsfjalli en Vinir Vatnajökuls veittu myndarlegan styrk til kaupa á henni. Þá verða alls fjórar vel staðsettar vefmyndavélar í rekstri á Vatnajökli en þegar eru tvær vefmyndavélar í Kverkfjöllum (http://vedur2.mogt.is/kverkfjoll/webcam/) en Vinir Vatnajökuls styrktu kaup á þeim. Kverkfjallavélarnar eru enn huldar klakabrynju en myndir frá þeim munu berast að nýju er líða tekur betur á vorið.
Horft til norðvesturs frá Kverkfjöllum 29. ágúst 2013. Sandstormur er á aurum Dyngjujökuls.