Nánar um sumarferð JÖRFÍ í Jökulheima um Verslunarmannahelgina

Í tilefni af 70 ára afmæli JÖRFÍ verður sumarferðin að þessu sinni á heimaslóðir félagsins í Jökulheimum um Verslunarmannahelgina, 31. júlí – 3. ágúst.

Farnar verða göngu- og könnunarferðir við allra hæfi og á laugardagskvöldið verður sameiginlegur hátíðarkvöldverður í öræfastíl. Gistipláss er í húsunum fyrir um 40 manns. Þeir sem það vilja geta tjaldað.

Umhverfis Jökulheima er stórbrotin og mikilúðleg náttúra sem mótuð er af eldgosum og jöklum. Á ísaldarskeiðum var hálendið löngum undir þykkum jökli. Þá mynduðust móbergsfjöllin sem einkenna þetta svæði, t.d. Bláfjöll, Gjáfjöll, Breiðbakur, Jökulgrindur, Heimabunga og Kerlingar. Á milli þeirra er landið þakið hraunum og söndum. Hraunin, sem sum eru mjög sandorpin, hafa runnið á síðustu 10.000 árum. Sandarnir eru myndaðir bæði af framburði jökuláa en efnið er líka gjóska úr stórum sprengigosum. Síðustu gosin af því tagi urðu 1477 þegar Veiðivötn í núverandi mynd urðu til (Veiðivatnagosið) og upp úr 870 (Vatnaöldugosið) þegar til varð gjóskulag sem finnst víða um land og nefnt er Landnámslagið. Sigdalir, gígaraðir og sprungur bera vitni um hvernig landið gliðnar vegna plötuhreyfinganna.

Haustið 1950 fundu Guðmundur Jónasson og fleiri bílfært vað yfir Tungnaá, Hófsvað, en þannig opnaðist ökuleið fyrir stóra fjallabíla inn á þetta afskekkta svæði. Í kjölfarið vaknaði hugmyndin um vorferðir, en fyrsta vorferð JÖRFÍ á Vatnajökul, um Hófsvað og Tungnaárjökul var farin 1953. Fyrsti skáli félagsins í Jökulheimum var byggður 1955, bílageymslan kom 1958, nýi skálinn var vígður 1970 og stækkaður 2010. Í ferðinni munum við minnast hinnar merku sögu jöklarannsókna og hlutverks Jökulheima í henni. Einnig munum við kynnast sérstæðri jarðfræði svæðisins, skoða ummerki um gos sem urðu undir ísaldarjöklum og hvernig Tungnaárjökull hefur hopað og breyst á síðustu áratugum.

Óskað er eftir að fólk tilkynni þátttöku í ferðina í síðasta lagi þriðjudag 28. júlí, til Þóru Karlsdóttur (tölvupóstur: thorakarls@gmail.com, sími: 866-3370). Innkaup í kvöldverðinn eru sameiginleg og mun Þóra gefa upplýsingar um hvernig skuli greiða kostnað. Farið verður á einkabílum. Leiðin inn í Jökulheima hentar ekki fólksbílum en er greiðfær fyrir alla jeppa og jepplinga. Þó svo að þú hafir ekki yfir jeppa að ráða er engin ástæða til að sleppa ferðinni. Reynt verður að finna öllum pláss í bílum.