Jaxlar fjölmenntu í Kerlingarfjöll

Sumarferð JÖRFÍ var farin helgina 27. – 29. júní. Þátttaka var gríðargóð, rúmlega fimmtíu manns. Mikið var af nýjum andlitum og kunnuglegri á öllum aldri, yngsti skráði þátttakandi var tæplega þriggja mánaða. Kári var í jötunmóð allt frá lendingu til brottfarar, en JÖRFÍ-jaxlarnir létu það hvergi á sig fá.

Á laugardegi var land lagt undir fót og gengið við öskjurima Kerlingarfjalla um neðri Hveradali, að Grænutjörn. Skiptist þá hópurinn í tvennt þar sem sumir fóru giljaleið um hveri og gróðurvinjar en aðrir töltu á Snækoll og Fannborg. Um kvöldið var tekið til við grillmennsku, tendrað bál og sungið við raust.

Frábær ferð fjölskrúðugs hóps – og ef marka má þrek og þor yngstu kynslóðarinnar er framtíð félagsins með eindæmum björt.

Myndir úr ferðinni má finna hér      (http://flickr.com/photos/23287827@N05/sets/72157605887376474/)