Helgi Björnsson hlýtur Íslensku bókmenntaverðlaunin

joklar_hb
Helgi Björnsson hlaut þann 10. febrúar Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðibóka fyrir bók sína Jöklar á Íslandi.

Helgi er vel að verðlaununum komin enda bókin mikið og glæsilegt rit, byggt á áratuga rannsóknum Helga og samstarfsmanna hans við Háskóla Íslands og víðar. Í henni er lýst „jöklum þessa lands og sambúð þjóðarinnar við þá frá upphafi byggðar til okkar daga, hvernig jöklar hafa mótað landið og eytt. Bókin segir sögu þekkingaröflunar og skilnings á jöklum frá því fyrst var farið að rannsaka þá fram til nútímarannsókna. Rakin eru spor löngu horfinna jökulbreiða, hulunni svipt af landinu undir jöklum Íslands og greint frá líklegri framtíð þeirra,“ eins og segir í tilkynningu bókaútgáfunnar.

Myndefni er fjölbreytt enda Helgi ötull og snjall ljósmyndari en auk þess eru í bókinni fjöldi skýringarmynda, landakort, gervihnattarmyndir og þrívíð kort af landslagi undir jöklum sem nú birtast í fyrsta sinn almenningi á prenti.

Þeim sem ekki hafa landað eintaki af þessu merka riti er bent á að hafa samband við bókaútgáfuna Opnu, Skipholti 50b, s.578-9080, opna(hjá)opna.is