Háfjallafundur í Eldborgarsal Hörpu 1. mars – ágóði rennur til jöklarannsókna

Sunnudagskvöldið 1. mars verður Háfjallafundur í Eldborgarsal Hörpu. Um er að ræða samstarfsverkefni Vina Vatnajökuls, FÍ, FÍFL og 66°Norður.

Þarna heldur fyrirlestur einn mesti fjallagarpur heims, David Breashers, en hann var staddur á Everest þegar 8 fjallgöngumenn létu lífið í stormi vorið 1996. Greint var frá þessum atburði í metsölubókinni Into thin Air eftir John Krakauer en Baltasar Kormákur er einmitt að leggja síðustu hönd á kvikmynd sína um þessa atburði og verður myndin frumsýnd næsta haust. David og Baltasar munu báðir rekja þessa mögnuðu sögu og sýna einstæðar myndir af fjallinu.

Einnig verður fyrirlestur um bráðnun jökla í Himalaya og Tómas Guðbjartsson, sem á sæti í stjórn Vinum Vatnajökuls og FÍ og Ólafur Már Björnsson, læknar, kynna fjallaskíðaferðir á hálendi Íslands og áform um gönguleið í kringum Vatnajökul.

Loks mun Tómas Jóhannesson jöklafræðingur kynna vef JÖRFÍ, spordakost.jorfi.is sem geymir upplýsingar um hreyfingar jökulsporða á Íslandi en þetta verkefni er styrkt af Vinum Vatnajökuls.

Kaupa verður miða fyrirfram á http://www.harpa.is. Miðaverð er kr. 1000,- og rennur ágóðinn óskiptur til jöklarannsókna á Íslandi.

Sjá nánari upplýsingar á: https://www.66north.is/hafjallakvold/