Fyrirlestur Finns og Þorsteins 17.11.

Þriðjudaginn 17. nóvember næstkomandi kl. 20:00 munu Finnur Pálsson (Jarðvísindastofnun Háskólans) og Þorsteinn Þorsteinsson (Veðurstofu Íslands) flytja erindi sem ber titilinn Afkoma jökla á Íslandi. Eins og áður verður erindið flutt rafrænt en hlekkurinn á streymið opnar kl. 19:45 á https://eu01web.zoom.us/j/62587026560

Ágrip fyrirlestursins Afkoma jökla á Íslandi

Afkoma jökuls segir til um hvort jökullinn rýrnar eða eykst að rúmmáli á tilteknu ári eða yfir lengra tímabil. Að vetri safnast snjór á jökulinn en að sumri bráðnar ís og snjór, afkoman er jákvæð ef massi vetrarsnævar er meiri en sá massi sem hverfur við leysingu sumarið á eftir. Afkoman ræðst einkum af veðurþáttum og landslagi.
Fyrstu mælingar á jökulafkomu hérlendis voru gerðar í sænsk-íslensku leiðöngrunum á Vatnajökul 1936-38. Frá stofnun Jöklarannsóknafélags Íslands 1950 hefur vetrarafkoma í Grímsvötnum verið mæld í vorferðum félagsins og sumarleysing einnig frá 1992. Ennfremur var vetrarafkoma (og stundum einnig sumarafkoma) mæld óreglulega á allmörgum stöðum á jöklum landsins á seinni hluta 20. aldar.
Árlegar afkomumælingar hófust á  Hofsjökli (1988), á Vatnajökli (1991) og á Langjökli 1997. Árlega hefur einnig verið mælt á Mýrdalsjökli frá 2007 og á Drangajökli var mælt árin 2005-2016. Á hverjum þriggja stærstu jöklanna er afkoma mæld á 25-70 föstum stöðum. Borað er í gegnum vetrarlagið að vori með snjókjarnabor og gufubor nýttur til að bora fyrir leysingarstikum eða vírum, sem lesið er af að hausti. Á síðustu árum hafa samfelldar sniðmælingar á snjóþykkt með radar (snjósjá) aukið þekkingu á dreifingu snævar á jöklunum og bætt nákvæmni í mati á vetrarafkomu.
Til að meta afkomu yfir lengri tímabil eru notuð hæðarlíkön byggð á flugljósmyndum, gervitunglagögnum og öðrum fjarmælingum. Mismunur á rúmtaki hæðarlíkana frá upphafi og lokum tiltekins tímabils gefur nákvæma rúmmálsbreytingu og styður við hinar hefðbundnu mælingar á afkomu.
Þekking sú sem aflað hefur verið um afkomu jökla á Íslandi frá aldamótunum 1900 og viðbrögð þeirra við loftslagsbreytingum var nýlega tekin saman til birtingar í vísindatímariti.  Sú grein er nýjasta framlag íslenskra vísindamanna til alþjóðlegs heildarmats á rýrnun jökla um jörð alla og hækkun sjávarborðs af þeim völdum.

Fyrirlestur Helga þriðjudaginn 20.10.

Fjarfundur JÖRFÍ þriðjudag 20. október kl. 20-21:
Helgi Björnsson – fyrirlestur JÖRFÍ: Ísland undir jökli
Aðgangur opnar kl. 19:45.

Hér er hlekkur á myndbandið: https://youtu.be/mSTqwJbpBxI.

Þriðjudaginn 20. október næst komandi kl. 20:00 mun Helgi Björnsson jöklafræðingur flytja erindi sem ber titilinn Ísland undir jökli. Eins og áður er erindið flutt rafrænt á Zoom en hlekkur á streymið verður sendur út samdægurs.

Ágrip fyrirlestursins Ísland undir jökli:

Frá miðjum áttunda áratug 20. aldar hefur landslag undir meginjöklum Íslands verið kannað með íssjármælingum; mældur er tíminn sem það tekur rafsegulbylgju að fara niður á botn jökuls. Alls hefur íssjáin verið dregin 16.000 km yfir jökul með snjóbílum, vélsleðum og jeppum. Að þessu verkefni hafa komið tugir jöklafara.
Niðurstöður þessara mælinga hafa nýst við ýmsar rannsóknir svo sem:
a) á ísforða jökla, ísflæði, viðbrögðum jökla við loftslagsbreytingum, rennsli jökulvatns til fallvatna, hlaup frá jökullónum og við eldsumbrot,
b) á jarðfræði Íslands, eldstöðvarkerfum og landmótun undir jöklum,
c) við mat á náttúruhamförum í jöklum,
d) við hönnun brúa yfir jökulvötn og nýtingu jökulvatns til virkjana.
Í erindinu verður lýst landi undir Vatnajökli, Langjökli, Hofsjökli og Mýrdalsjökli: öskjum, stöpum, móbershryggjum, hásléttum, dölum og ísfylltum trogum. Þótt allir íslenskir jöklar rýrni nú hratt mun ekkert okkar sjá allan botn þeirra á annan hátt en með íssjárgleraugum; allt á aðeins 45 mínútum!

Við hvetjum alla til að mæta á þetta spennandi erindi.

Fyrirlestur Snævarrs þriðjudaginn 29.9

Fjarfundur JÖRFÍ þriðjudag 29. september kl. 20-21:
Snævarr Guðmundsson – fyrirlestur JÖRFÍ: Í spor jöklamælingamanna á Breiðamerkursandi
Aðgangur opnar kl. 19:45.


Smellið á hlekkinn og fylgið leiðbeiningum inn á fundinn:
https://eu01web.zoom.us/j/64783134585?pwd=bDFqWXJDanRNM0V3ZEI4T1RESnp3dz09

Ágrip fyrirlestursins Í spor jöklamælingamanna á Breiðamerkursandi:

Í þessu erindi mun Snævarr Guðmundsson segja frá kortlagningu sinni á hopi Breiðamerkurjökuls, frá því að jökullinn var í hámarksstöðu í lok  19. aldar. Fyrsta nákvæma kortið af jöklinum var unnið af danska herforingjaráðinu í byrjun 20. aldar, en þá var Breiðamerkurjökull örlítið tekinn að hopa. Næst var svæðið kortlagt eftir loftmyndum sem ameríski herinn tók á árunum 1945-6 en á þeim tíma hafði jökullinn hopað talsvert á þeim fjóru áratugum sem liðið höfðu frá því að herforingjaráðskortin voru gefin út. Nokkru fyrr, eða á fjórða áratugnum fóru menn að fylgjast skipulegar með framvindunni og þá hófust m.a.sporðamælingar. Þeim hefur verið viðhaldið fram til okkar daga. Hop jökulsins, og Breiðamerkursandur var kortlagður nokkrum sinnum á 20. öld. Þessar kortlagningar byggðu á viðurkenndum aðferðum og fáanlegum gögnum á hverjum tíma. Margar af þeim, sérstaklega eftir miðja 20. öld, byggðu á loftmyndum. Nákvæmni korta batnaði því sífellt eftir því sem leið á öldina en á sama tíma var jökullinn alltaf að hopa. Í hverju nýju korti birti því land sem hafði komið undan hopandi jökli, og í sífellt skýrari dráttum. Árin 2010-2012 var Vatnajökull skannaður með leysigeislatækni (LiDAR) en afar lítil óvissa er í þeim gögnum, samanborið við fyrri aðferðir. Út frá ofangreindum upplýsingum gögnum, auk ýmissa annarra, t.a.m. gervitunglamyndum, ljósmyndum teknum í flugi eða af landi, frásögnum, rituðum heimildum og sporðamælingagögnum Jöklarannsóknafélagsins hefur hop Breiðamerkurjökuls nú verið rakið ítarlega á stórum svæðum. Í erindinu verður m.a. sagt frá þýðingu sporðamælinganna við að rekja þá atburðarás.

Fyrirlestraröð JÖRFÍ

Fyrirkomulagið verður eftirfarandi:  

  • Ágrip/stutt kynning á efninu og flytjandanum mun fara á vefsíðuna nokkrum dögum fyrir fund.   
  • Vefslóð inn á fyrirlesturinn verður sett á vefsíðu JÖRFÍ kvöldið áður en fundurinn fer fram.   
  • Fundur hefst stundvíslega kl. 20:00 á fundardaginn. 
  • Hver fyrirlestur verður 30-45 mínútur. 
  • Í kjölfarið koma umræður og fyrirspurnir áheyrenda og fyrirlesari svarar. 
  • Tilkynningar um ágrip og áminningar um fundi verða sendar í tölvupósti til félagsfólks. 

Vilji fólk kaffi og kökur þarf hver og einn að sýna þá fyrirhyggju að fá sér slíkar veitingar heima, enn hafa ekki fundist aðferðir til að senda matvæli með tölvupósti. 

Stjórn JÖRFÍ 

Tengill á streymi á erindi vorfundar

Að þessu sinni heldur Jöklarannsóknafélag Íslands ekki hefðbundinn vorfund heldur verður haldinn veffundur þar sem streymt verður erindi Joaquín Belart um afkomu íslenskra jökla á tímabilinu 1945 – 2017. Streymið hefst á morgun, þriðjudagskvöld, kl. 20. Til að tengjast er smellt á tengilinn hér að neðan í vafra, ýmist á tölvu eða snjalltæki. Á snjalltæki getur þurft að hlaða niður zoom-appinu áður en tenging verður virk, en skilaboðin þess efnis ættu þá að birtast þegar smellt er á tengilinn. Auðkennisnúmer fundar og aðgangsorð eru einnig hér að neðan en ekki ætti að vera nauðsynlegt að nota þau.

Erindið sjálft fer fram á ensku en glærur eru að mestu á íslensku. Við bendum á að gerð verður upptaka að erindinu og verður hún aðgengileg um einhvern tíma af vefsíðu félagsins.

Joaquín Belart,
afkoma 14 íslenskra jökla á tímabilinu  1945 – 2017
kl. 20:00, 5. maí 2020.

Tengill: „
https://eu01web.zoom.us/j/69211072780?pwd=Vm9MVW45b1VuMHdyUFNNS0RSR25sUT09

Meeting ID: 692 1107 2780
Password: 232323