Heldur var haustferðin vetrarleg í ár. Þrátt fyrir kalda veðurspá með  úrkomu reiknuðu þátttakendur  ekki með slíkri ófærð og snjómokstri inn á fjöllum. Fækkaði í hópnum í  aðdraganda ferðarinnar, líklega  vegna lítt freistandi spár, en galvaskur hópur lagði af stað úr  höfuðborginni að morgni 15. september, alls 5 bílar. Slydda og snjómugga tók á móti hópnum í  Hrauneyjum, en ferðaáætlun var  haldið og keyrt um Þórsiós og Veiðivatnahraun. Jólalegt var um að  lítast, hvít jörð og einstaka  hraunnibbur sáust út um snjóugar bílrúðurnar. Má segja að Freelander  Sverris Elefsen hafi staðið  sig einna best á þessari leið, en öruggt leiðarval Hlyns Skagfjörð á  rauðu Toyotunni auðveldaði til muna aksturinn í hvítu hrauninu. Var náð í Jökulheima um kaffileytið  og hafði þá Jöklarauður sameinast hópnum við Þröskuld, með vaska skálasveit innanborðs, Villi,  Árni Palli og börn. Eftir kakódrykkju og afslöppun í skálunum ákvað  hluti hópsins að láta ekki frost og snjófjúk á sig fá og heimsóttu  Heljargjá og Dórinn. Jöklarauðssveitin setti oliu á skálana, tóku til í  vélageymslunni og hugðu að skálunum. Grillveisla um kvöldið í skjóli  vélageymslunnar lukkaðist vel, og allir fóru mettir í koju. Bættist einn  bíll við hópinn um kvöldið, Hlynur Snæland og fjölskylda. Blár himin,  sólskin og frost tók á móti hópnum í morgunsárið, flórsykrað landslagið  ekki síðra en á heitum sumardegi. Einungis þrír bílar fóru áætlaða leið  yfir Tungná á Gnapavaði, á Breiðbak og inná nyrðra Fjallabak. Aðrir  þátttakendur fóru hefðbundna leið til byggða, ruddust gegnum snjóskafla  í veginum, sumir í tóg og aðrir án.
Ferðalangar í fánalitunum nærri Langasjó

 
Gnapavað var ekki til vandræða, enda  búið að vera frost daginn áður og um nóttina. Leiðin uppá Breiðbak gekk  vel, en Snæland ruddu veginn á hvíta fína Patrólnum. Yfirsýn á Langasjó  og jökla var mögnuð, hvít veröldin í allri sinni dýrð. Þótti  leiðangursmönnum og konum þau hafa launað útsýnið með skyggnislausu  skakki daginn áður. Bílar voru festir í krapa, snjósköflum, bleytu og  sandi, voru spil og spottar notaðir í gríð og erg. Komið var niður að  Langasjó og keyrt inná Nyrðri Fjallabaksleið yfir krapafyllta læki og  snjóugarbrekkur. Við Höllina rakst hópurinn á tvo smala, sem voru heldur  þungir á brún, enda gekk reksturinn hægt og illa. Sunnan við  Landmannalaugar var færðin heldur betri, og var farin Sigölduleið í  Hrauneyjar. Má segja að hetjur dagsins hafi verið yngri deildin sem lét  sig hafa það að hossast í bílunum allan daginn og blái Wranglerinn, en  hann var eina farartækið sem ekki þurfti að kippa í. Ekki var Fjallabak  ófærara en svo að hópurinn í fánalitunum var kominn til höfuðborgarinnar  eftir 10 tíma ferðalag úr Jökulheimum, reynslunni ríkari með  myndavélarnar fullar af fallegum vetrarmyndum. Víst er nauðsynlegt að  fara svipaða leið áður en langt um líður og skoða betur hraunin,  sigdalina, sprungurnar og eldvörpin áður en þau klæðast vetrarkápunni.
Skemmtinefndin þakkar fyrir góða ferð.