Haustferð JÖRFÍ

Haustferð Jörfí verður að þessu sinni farin í Nauthaga. Slegist verður í
för með Leifi Jónssyni lækni og jöklafara og félögum inn að Hofsjökli
til sporðamælinga fyrstu helgi októbermánaðar. Lagt verður af stað
föstudagsmorguninn 3.október og haldið tilbaka á sunnudagseftirmiðdegi.
Hafst verður við í tjöldum fyrri nóttina og líklega gist í
góðum fjallaskála á laugardagskvöld – en ferðatilhögun og gististaðir
eru háðir veðri og aðstæðum. Góðir gönguskór og viðlegubúnaður eru
nauðsyn. Þar sem ekið verður um fáfarnar slóðir og á köflum erfiða
fjallvegi verða bílar að vera vel útbúnir og eru þátttakendur alfarið á
eigin ábyrgð á eigin farartækjum. Eins verða bíllausir sjálfir að finna sér
sæti. Þeir sem vilja fara í ferðina vinsamlegast hafi samband við Ágúst
Hálfdánsson í síma 894-5257.

Árshátíð JÖRFÍ

Árshátíð Jöklarannsóknafélagsins verður haldin laugardaginn 8. nóvember næstkomandi. Gleðin hefst kl. 17.30, nánara fyrirkomulag auglýst á haustfundi þann 21. október. Takið dagana frá!

skálinn að Breiðá tekinn í gegn um Verslunarmannahelgina

Nokkrir félagar JÖRFÍ halda austur í sveitir um helgina og ætla að dytta að elsta skála félagsins á Breiðamerkursandi. Einnig stendur til að setja upp GPS tæki á sporði Breiðamerkurjökuls og kortleggja nokkra jökulgarða í sýslunni. Hvetjum félagsmenn til þess að líta við, leggja mat á framkvæmdirnar og fagna góða veðrinu.

Jaxlar fjölmenntu í Kerlingarfjöll

Sumarferð JÖRFÍ var farin helgina 27. – 29. júní. Þátttaka var gríðargóð, rúmlega fimmtíu manns. Mikið var af nýjum andlitum og kunnuglegri á öllum aldri, yngsti skráði þátttakandi var tæplega þriggja mánaða. Kári var í jötunmóð allt frá lendingu til brottfarar, en JÖRFÍ-jaxlarnir létu það hvergi á sig fá.

Á laugardegi var land lagt undir fót og gengið við öskjurima Kerlingarfjalla um neðri Hveradali, að Grænutjörn. Skiptist þá hópurinn í tvennt þar sem sumir fóru giljaleið um hveri og gróðurvinjar en aðrir töltu á Snækoll og Fannborg. Um kvöldið var tekið til við grillmennsku, tendrað bál og sungið við raust.

Frábær ferð fjölskrúðugs hóps – og ef marka má þrek og þor yngstu kynslóðarinnar er framtíð félagsins með eindæmum björt.

Myndir úr ferðinni má finna hér      (http://flickr.com/photos/23287827@N05/sets/72157605887376474/)