Í tilefni af sumarferð – Leiðsögn um Vatnajökulsþjóðgarð

Í tilefni af sumarferð Jöklarannsóknarfélagsins að Langasjó þá vilja samtökin „Vinir Vatnajökuls“ bjóða meðlimum JÖRFÍ afslátt af bók samtakanna „Leiðsögn um Vatnajökulsþjóðgarð“ eftir Hjörleif Guttormsson. Bókin kom út fyrir síðustu áramót og býðst félögum JÖRFÍ að kaupa bókina á kr. 2.500,- í stað kr. 3.999,-. Til að nálgast bókina er hægt að senda tölvuskeyti á Kristbjörgu Hjaltadóttur, framkvæmdastjóra Vina Vatnajökuls, á netfangið „ksh hjá vinirvatnajokuls punktur is“.

Sumarferð að Langasjó

Sumarferð Jöklarannsóknafélagsins verður farin að Langasjó 6.-8. júlí eins og áður var auglýst í fréttabréfi félagsins. Lagt verður af stað á hádegi á föstudegi frá Select Vesturlandsvegi og farið á einkabílum, og miðað er við að koma að Langasjó síðla dags. Gist verður í tjöldum við skála Útivistar við Sveinstind en fararstjóri í ferðinni og leiðsögumaður verður Jósef Hólmjárn. Við Langasjó er ýmislegt að skoða og er ætlunin að eyða laugardeginum í gönguferð um svæðið, mögulega um Sveinstind, Fögrufjöll eða útfallið en það ræðst af áhuga. Á sunnudeginum verður ekið í rólegheitum frá Langasjó og staldrað við á áhugaverðum stöðum eins og tími og áhugi leyfir. Skráning í ferðina fer fram á netfanginu: sumarferd@gmail.com, eða hjá Hálfdáni Ágústssyni í síma 8659551. Frekari upplýsingar um dagskrá sumarferðarinnar birtast munu birtast hér á heimasíðu félagsins.

Veður og myndir frá Kverkfjöllum

Í byrjun mánaðar var sett upp vefmyndavél, auk veðurstöðvar norðan við skála Jöklarannsóknafélagsins í Kverkfjöllum. Upplýsingarnar uppfærast á 30 mín fresti og eru aðgengilegar hér. Myndavélin horfir yfir vesturhluta Hveradals þar sem jökulstíflað lón myndast vegna jarðhita en úr því hleypur reglulega. Veðurstöðin er einnig hentug til að gá til veðurs áður en haldið er til göngu um svæðið.

Hér er aðgengilegt myndband sem sýnir 10 daga á vefmyndavélinni í Kverkfjöllum á um 1 mínútu myndskeiði https://vimeo.com/44039559.

Verkefnið er m.a. styrkt af Vinum Vatnajökuls en ýmsir aðrir hafa jafnframt komið að því.

Með kveðju frá Birni Oddssyni

Mælingaferð á Mýrdalsjökul

Félagar úr Jöklarannsóknafélaginu fóru hefðbundna mælingaferð á Mýrdalsjökul á uppstigningardag en ferðinni hafði áður verið frestað vegna veðurs. Veður á jökli var fínt og margir á jökli að sinna mælingum, JÖRFÍ við ákomumælingar, Jarðvísindastofnun við íssjármælingar auk veðurfræðinga frá Belgingi við tilraunir með fjarstýrðar mælingaflugvélar. Sem fyrr voru boraðar þrjár ákomuholur og reyndist þykkt vetrarsnævarins yfirleitt yfir meðallagi en enn er þó eftir að reikna úr niðurstöðunum. Í haust verður vitjað um holurnar á ný og þá kemur í ljós hve afkoma jökulsins fyrir þetta ár verður. RÚV var með stutta frétt um ferðina á vef sínum: „http://ruv.is/sarpurinn/frettir/20052012-5“, nærri 11. mínútu.

Jöklarauður á Mýrdalsjökli. Mynd: Valdimar Leifsson

Jöklarauður á Mýrdalsjökli. Mynd: Valdimar Leifsson

Nýtt fréttabréf og vorfundur

Nýtt fréttabréf Jöklarannsóknafélagsins er komið út og er aðgengilegt hér.

Vorfundur félagsins verður haldinn í Öskju, náttúrfræðahúsi Háskólans næstkomandi þriðjudag 24. apríl kl. 20.