Ný vefsíða Jökuls

Ný heimasíða Jökuls, tímarits Jöklarannsóknafélags Íslands og Jarðfræðafélags Íslands, er komin á netið, sjá www.jokulljournal.is. Unnið verður að frekari lagfæringum og nánari útfærslum fram eftir hausti.

Sjá nánar hér af ýmsum hremmingum sem Jökull lenti í á árinu, og varð m.a. kveikjan að því að flýtt var að hleypa nýrri vefsíðu Jökuls af stokkunum.

Sumarferð aflýst

Sumarferð er aflýst vegna slæmrar veðurspár. Besta veðrið verður heima.

Sumarferð JÖRFÍ

Jöklarannsóknafélagið ráðgerir sumarferð á Okjökul fyrstu helgina í júlí (5.-7.) Skráning í ferðina fer fram á netfangið: sumarferd hjá gmail.com, eða hjá
Hálfdáni Ágústssyni í síma 8659551.

Flestir kannast við Okið, sem er grágrýtisdyngja með toppgíg, áþekk Skjaldbreið. Dyngjulögunin blasir vel við af Kaldadal en úr Borgarfjarðardölum ber meira á Oköxlinni, sem er móbergsfjall utan í dyngjunni. Jökullinn á Oki hefur látið mjög á sjá á undanförnum árum og hefur lón verið að myndast í toppgígnum, þar sem hluti jökulhettunnar lá áður yfir.

Áætlað er að ganga frá Kaldadal upp á hæsta koll Oksins og litast um kringum lónið nýja. Af Okinu er mikilfenglegt útsýni til Langjökuls, Eiríksjökuls og Þórisjökuls. Síðan verður gengið norður af dyngjunni og niður í tjaldstað við Hringsgil, vestarlega í landi Húsafells. Í Hringsgili verður slegið upp grillveislu um kvöldið. Á sunnudeginum verður ekin fáfarin jeppaslóð til vesturs meðfram Reykjadalsá og ef tími vinnst til mætti einnig skoða nýja sýningu um Snorra Sturluson í Reykholti.

Veðurstöð í Kverkfjöllum

Veðurstöðin og vefmyndavélarnar í Kverkfjöllum erum komnar í gagnið á ný, eftir kuldalega vetrarvist í klakabrynju: „http://vedur.mogt.is/harbor/?action=Stations&harborid=13„. Björn Oddsson og M&T bera hita og þunga af verkefninu en Vinir Vatnajökuls veittu myndarlegan styrk til verkefnisins en jafnframt hafa Vegagerðin, Hjálparsveit skáta í Kópavogi og Jöklarannsóknafélag Íslands komið að því.

Horft úr vefmyndavél í Kverkfjöllum til Herðubreiðar

Horft úr vefmyndavél í Kverkfjöllum til Herðubreiðar

Snjóbílar HSSK við veðurstöð í Kverkfjöllum

Snjóbílar HSSK við veðurstöð í Kverkfjöllum

GJÖRFÍ og Suðurstrandarvegur

Laugardaginn 18. maí fer GJÖRFÍ um Suðurstrandarveg. Mæting er við Nesti Fossvogi kl. 10 á laugardagsmorgni og N1 við lækinn í Hafnarfirði kl 10.15.

Farið verður um Svartsengi, Grindavík og austur í Selvog, með stuttum göngu-, fræðslu- og nestisstoppum og e.t.v. T-kaffistoppi í Selvogi.