Entries by Katla

100 ár frá fyrstu ferð í Grímsvötn – 31. ágúst 2019

Þann 31. ágúst síðastliðinn voru nákvæmlega 100 ár frá því menn komu fyrst í Grímsvötn svo vitað sé. Þar voru á ferð tveir ungir sænskir jarðfræðingar, Erik Ygberg og Hakon Wadell. Þeir fóru upp Síðujökul seint í ágúst 1919 og höfðu með sér þrjá hesta sem drógu farangur og vistir á sleða. Í ferðinni fundu þeir Grímsvötn og nefndu Svíagíg. Þeir héldu síðan áfram för sinni austur eftir Vatnajökli og komu til byggða niður Heinabergsjökul eftir nokkra hrakninga. Ferð þeirra Ygberg og Wadell var mikið afrek en segja má með sanni að Grímsvötn hafi á þessum tíma, og e.t.v. alla tíð síðan, verið sá staður á Íslandi sem erfiðast er að fara til. Hæstu tindar á Grímsfjalli í Vatnajökli eru nefndir eftir þeim félögum, Svíahnjúkar, eystri og vestari. Nafnið Grímsvötn er hinsvegar mun eldra og kemur fyrst fyrir í heimildum kringum árið 1600.

Ferð Ygberg og Wadell hefði getað endað illa, en svartaþoka var þennan dag fyrir 100 árum þegar þeir héldu stefnunni nokkurn veginn í austnorðaustur frá Háubungu. Skyndilega stoppaði fremsti hesturinn og varð honum ekki þokað hvernig sem reynt var. Þá rofaði aðeins í þokuna og þeir áttuðu sig á að þeir voru staddir á brún hengiflugs. Hesturinn hafði augljóslega skynjað hættuna. Daginn eftir fóru Ygberg og Wadell niður í Grímsvötn og tóku myndir sem eru í dag mikilsverð heimild.

Til að minnast þessarar ferðar bætti Jöklarannsóknafélagið því verkefni inn í vinnuferð í skálana á Grímsfjalli, að halda upp á tímamótin. Alls tóku 22 þátt í ferðinni. Skálarnir voru málaðir og viðgerðum og viðhaldi sinnt. En að auki var stutt dagskrá laugardaginn 31. ágúst um Ygberg og Wadell, og farið á staðinn þar sem þeir komu fram á brún Grímsfjalls.

Magnús Tumi Guðmundsson

Sumarferð JÖRFÍ 9.-11. ágúst

Sumarferð JÖRFÍ verður farin helgina 9. – 11. ágúst. Að þessu sinni verður farið í Bása í Þórsmörk og gist í tjöldum. Aðalþema ferðarinnar verður skoðun á ummerkjum um eldgosin í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi vorið 2010. Fyrstu daga gossins í Eyjafjallajökli komu heilmikil jökulhlaup niður Gígjökul, fylltu lónið og gerbreyttu landslagi framan við jökulinn. […]

Vorferð 2019

Sunnudaginn 9. júní lauk vorferð JÖRFÍ á Vatnajökul, þeirri 67. í röðinni, en fyrsta ferðin var farin 1953. Ferðin gekk mjög vel og okkur tókst að leysa af hendi öll verkefni sem áætlað var að vinna. Ferðin skiptist í fyrri og seinni hóp. Fyrri hópurinn var á ferðinni 29. maí – 4. júní, en sá seinni 4.-9. júní. Farið var um Skálafellsjökul en ekki Tungnaárjökul eins og venja er. Ástæðan er sú að Tungnaárjökull hefur hopað svo mikið að framan á síðustu árum að framan við hann er nú komin samfelld slétta með aurbleytu sem er ófær flestum farartækjum. Óvíst er hvernig verður á næstu árum, en vonandi finnst leið svo hægt sé að halda áfram ferðum um Jökulheima, enda er sú leið helmingi styttri frá Reykjavík en leiðin um Skálafellsjökul.

Klikkið á „read more“ til að lesa meira og sjá myndir.

Afkomumælingar á Mýrdalsjökli 18.-19. maí

Sjálfboðaliðar Jöklarannsóknafélagsins halda áfram reglubundnum afkomumælingum á Mýrdalsjökli. Næsta mælingaferð er fyrirhuguð helgina 18. – 19. maí, en tímasetning er háð veðurspá og verður dagur ákveðinn þegar nær dregur þessari helgi. Félagar í JÖRFÍ eru velkomnir með á jökla-bifreiðum sínum en reynt verður að skipa þeim í laus sæti sem ekki komast á eigin farartæki. […]