Fyrirlestur Þorsteins Sæmundssonar þriðjudaginn 20. apríl 2021 kl. 20:00
Þorsteinn Sæmundssson – fyrirlestur JÖRFÍ: Ofanflóð á Íslandi – aurskriður og berghlaup.
Hver er staðan á rannsóknum og kortlagningu á Íslandi í dag?
Fundurinn hefst kl. 20:00 en hlekkurinn opnast kl. 19:45. Hér er hlekkur á fundinn: https://eu01web.zoom.us/j/62125093634
Í fyrirlestri sínum mun Þorsteinn fara yfir rannsóknir á ofanflóðum á Íslandi og þá sér í lagi þess hluta sem flokka mætti til aurskriðna og berghlaupa. Miklar breytingar hafa orðið og eru að eiga sér stað í náttúru Íslands. Skriðjöklar hopa hratt, jökullón sem eru og hafa verið að myndast við sporði skriðjökla stækka að sama skapi. Fjallshlíðar fyrir ofan þessa hörfandi jökla og jökullón þeirra standa eftir, oft á tíðum óstöðugar. Samfara hlýnandi veðurfari hefur orðið vart við að sífreri í fjöllum er að þiðna og láta undan og hafa stór skriðuföll fallið hér á landi undanfarin áratug sem rekja má til þiðnunar sífrera. Vísbendingar eru um að breytingar hafi orðið á úrkomumynstur og úrkomuákefð samfara hlýnandi veðurfari og má hugsanlega rekja stór skriðuföll sem fallið hafa hér á landi á undanförnum árum til þeirra breytinga. Aurskriður og berghlaup eru þó engin nýlunda eins og glöggt má sjá á samantekt Ólafs Jónssonar. Fjölmörg dauðsföll má rekja til þessarar tegundar ofanflóða á síðustu öld og segja má að hurð hafa skollið nærri hælum á Seyðisfirði í desember síðastliðinn, en einhvern vegin hefur þessi málaflokkur almennt fengið mjög litla athygli hingað til hér á landi. Í fyrirlestri sínum mun Þorsteinn fara yfir hvernig staðið er að rannsóknum, skráningu og kortlagningu á aurskriðum og berghlaupum á Íslandi í dag og mun fjalla um nokkur nýleg dæmi skriðufalla á undanförnum áratugum.
Þorsteinn lauk Bs prófi í jarðfræði frá Háskóla Íslands árið 1988 og fjórða árs prófi í jarðfræði frá HÍ sama ár. Þorsteinn hóf nám við Háskólann í Lundi árið 1989 og lauk þaðan Fil.lic prófi í ísaldarjarðfræði árið 1992 og doktorsprófi á sama sviði árið 1995. Vorið 1995 fluttist hann ásamt fjölskyldu sinni til Íslands og hóf störf við snjóflóðadeild Veðurstofu Íslands vorið 1995 og starfaði þar til loka árs árið 1999. Í byrjun árs 2000 hóf hann störf sem forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra og byggði hana upp frá grunni. Þorsteinn starfaði sem þar til byrjun árs 2014 og hefur síðan þá starfað við kennslu og rannsóknir við Háskóla Íslands, en árið 2020 starfaði hann við afleysingar sem sérfræðingur í Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Frá því að Þorsteinn snéri heim úr námi hefur hann unnið töluvert að rannsóknum á ofanflóðum. Störf hans á Veðurstofunni snéru að miklu leiti að snjóflóðum og uppbyggingu snjóflóðaeftirlits á landinu. Orsakir og eðli skriðufalla, auk rannsókna á jarðfræðilegum ummerkjum bæði snjóflóða og skriðufalla hefur þó alltaf skipað stóran sess í rannsóknum hans.