Yfirlit yfir fréttir og færslur skrifaðar á vef félagsins

Dagskrá JÖRFÍ

Á síðasta stjórnarfundi voru ákveðnar dagsetningar fyrir ferðir og aðra viðburði sem eru á dagskrá hjá félaginu. Haustgönguferðir í aflestur á sumarleysingu í samstarfi við 66°Norður eru settar fram með bráðabirgðadagsetningum, enda mjög háðar veðri. Einnig þarf gott veður og skyggni til þess að fara í Þórsmörk í ljósmyndaleiðangur, hér má skoða myndirnar sem fyrirhugað er að endurgera https://islenskirjoklar.is/#/page/picturedetail?location=tungnakvislarj.

Afkomumælingaferð á Mýrdalsjökul 15. maí frestað

Í ljósi lélegrar veðurspár fyrir bæði laugardag og sunnudag, þar sem stefnir í talsverða ofankomu og hvassviðri höfum við ákveðið að fresta ferð á Mýrdalsjökul sem fyrirhuguð var um helgina. Við munum endurmeta stöðuna í byrjun næstu viku og horft til þess að reyna við næsta góða veðurglugga. Við sendum svo í framhaldinu nýja ferðáætlun!

Undirbúningsnefndin,
Andri, Eyjólfur og Hrafnhildur

Hulda Filppusdóttir (1924-2022)

Hulda Filippusdóttir, heiðursfélagi JÖRFÍ, lést þann 29. mars á 98. aldursári og útför hennar var 7. apríl.  Hulda stundaði svifflug á yngri árum, útilegur og fjallaferðir alla tíð og tók þátt í fjölda ferða á Vatnajökul. Hún var virk fram undir það síðasta, fór m.a. þyrluferð að eldgosinu við Fagradalsfjall á síðasta ári. Þegar þau Árni Kjartansson (1922-2017) giftu sig var vorferðin á Vatnajökul 1956 þeirra brúðkaupsferð. Tengsl Huldu og Árna við félagið voru alla tíð sterk og rofnuðu aldrei. Hulda Filippusdóttir var eftirminnileg öllum sem henni kynntust.  Hún tilheyrði hópi frumkvöðlanna, þeim harðduglega kjarna sem með áræðni og vinnugleði byggði upp Jöklarannsóknafélagið. Hún var hrein og bein, í senn glöð í sinni og ákveðin og var eðlislægt að greina kjarnann frá hisminu. Fyrir vikið var gott að leita til Huldu og þiggja hennar hollu ráð.  Jöklarannsóknafélagið minnist Huldu með virðingu og þökkum og vottar aðstandendum innilega samúð.

Afkomuverkefni og vorferð