Streymt frá aðalfundi í kvöld.

Aðalfundur Jöklarannsóknafélags Íslands verður haldinn í kvöld, þriðjudaginn 22. febrúar 2022 kl. 20:00 í sal 132 í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands.

Streymt verður frá fundinum fyrir kaffihlé, en ekki verður hægt að greiða atkvæði. Hlekkur á streymið: „https://eu01web.zoom.us/j/65541794022„.

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum og kaffihléi verður sýnd heimildakvikmyndin, “Hinn stóri samhljómur sandsins“ sem lýsir hinni stórbrotnu náttúru Breiðamerkursands. Myndinni verður hins vegar ekki streymt. Gunnlaugur Þór Pálsson er leikstjóri en hann er einnig höfundur ásamt Þorvarði Árnasyni. Framleiðendur eru Sjónhending og Loftslagssjóður. Í myndinni eru m.a. notuð kort og þrívíddargögn frá Jarðvísindastofnun Háskólans, Vatnajökulsþjóðgarði og Veðurstofu Íslands. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Loftslagssjóður styrktu gerð myndarinnar. Hægt er að sjá myndbrot úr hinum stóra samhljóm sandsins hér: „ https://vimeo.com/597439676„.

Aðalfundur JÖRFÍ annað kvöld, 22. feb.

Minnum á aðalfundinn annað kvöld, þriðjudaginn 22. febrúar. Sjá frétt hér að neðan.

Aðalfundur JÖRFÍ og nýtt fréttabréf

Aðalfundur Jöklarannsóknafélags Íslands verður haldinn þriðjudaginn 22. febrúar kl. 20:00, í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands.

Nánar um efni aðalfundarins í nýju fréttabréfi JÖRFÍ: „http://gamli.jorfi.is/wp-content/uploads/2022/02/151_2022-02.pdf„.

Frá formanni JÖRFÍ

Nú í febrúar verða liðin 24 ár síðan ég var kosinn formaður Jöklarannsóknafélagsins og 26 ár frá því ég kom inn í stjórn þess.  Þessi tími er búinn að líða hratt og margt á dagana drifið.  Félag eins og okkar byggist á vinnu margra.  Það hefur verið gæfa félagsins að í það hefur sótt duglegt og skemmtilegt fólk sem lagt hefur hart að sér við að halda við skálum og jöklabílum, mæla jökulsporða og gefa út vandað vísinda- og félagsrit.  Eru þá ótalin margvísleg störf sem ekki eru endilega svo sýnileg en skipta miklu til að allt gangi upp.  Þær eru líka margar ánægjustundirnar úr vorferðum og öðrum ferðum, árshátíðum og fræðslufundum.  Að taka þátt í þessu öllu undanfarinn aldarfjórðung hefur veitt mér mikla ánægju.  En allt hefur sinn tíma.  Ég hef ákveðið að gefa ekki kost á mér áfram og nýr formaður verður kjörin á næsta aðalfundi í síðustu viku febrúar.  Ég mun yfirgefa stjórnina sáttur, hlakka til að verða almennur félagi á ný og er þess fullviss að félagið eigi eftir að eflast og dafna á komandi árum.

Magnús Tumi Guðmundsson