Fyrirlestrar annað kvöld um Grímsvatnahlaup og skjálftamælingar á Vatnajökli

Við minnum á fjarfundinn annað kvöld, miðvikudaginn 19. janúar, kl. 20 – 22.

Eyjólfur Magnússon mun segja frá Grímsvatnahlaupi sem varð í lok árs 2021 og Kristín Jónsdóttir ásamt Sölva Þrastarsyni segja frá óhefðbundnum jarðskjálftamælingum með ljósleiðara á Grímsfjalli. Í upphafi fundarins verður nýr vefur tímaritsins Jökuls formlega opnaður og virkni hans kynnt. Nánari upplýsingar eru í fyrri tilkynningu hér að neðan.

Fundinum verður einungis streymt á netinu, og hlekkurinn hér á eftir opnast stuttu fyrir fundinn: „https://eu01web.zoom.us/j/66705211352„. Hægt er að tengjast fundinum með Zoom hugbúnaði í t.d. síma eða tölvu.

Fræðsluerindi á fjarfundi og ný vefsíða Jökuls

Miðvikudaginn 19. janúar verður fyrsta fjar-fræðsluerindi JÖRFÍ þetta árið. Eyjólfur Magnússon mun segja frá Grímsvatnahlaupi sem varð í lok árs 2021 og Kristín Jónsdóttir ásamt Sölva Þrastarsyni segja frá óhefðbundnum jarðskjálftamælingum með ljósleiðara á Grímsfjalli. Í upphafi fundarins verður nýr vefur tímaritsins Jökuls formlega opnaður og virkni hans kynnt.

Grímsvatnahlaup á aðventunni 2021: Í nóvember 2021 hófst jökulhlaup úr Grímsvötnum. Þá hafði tæpur rúmkílómetri af bræðsluvatni safnast fyrir í vötnunum frá síðasta hlaupi sem var haustið 2018. Ekki hafði safnast eins mikið í vötnin í 25 ár, þ.e. síðan í Gjálpargosinu 1996. Aldrei hefur áður verið fylgst eins vel með gangi Grímsvatnahlaups. Vatnsborð Grímsvatna er vaktað í tveimur GPS stöðvum sem eru staðsettar í fljótandi íshellu Grímsvatna og voru í beinu fjarskiptasambandi þannig að mælingarnar bárust jafnóðum og þær voru skráðar. Út frá sighraða íshellunnar, sem mældur var með nákvæmni upp á 1-2 cm á dag, var hægt reikna hversu hratt rann úr vötnunum. Þessar mælingar sýna að úrrennsli vatnanna óx úr fáeinum m3/s um miðjan nóvember í ~3500 m3/s að kvöldi 4. desember, eftir það minnkaði rennslið hratt og 7. desember höfðu vötnin líklega tæmst. Í erindinu verður farið yfir þessar mælingar og aðrar sem aflað var í hlaupinu. Í erindu verður einnig verður farið yfir þær breytingar sem orðið hafa í Grímsvötnum frá Gjálpargosinu til dagsins í dag.

Eyjólfur Magnússon er vísindamaður í jöklafræði við Jarðvísindastofnun Háskólans

Ljósleiðaraverkefni á Grímsfjalli: Í maí 2021 var farinn rannsóknarleiðangur á Grímsfjall í óhefðbundnar jarðskjálftamælingar þar sem plægður var 12 km langur og 0,5 cm breiður ljósleiðarakapall, um 0,5 m ofan í snjóinn, frá Grímsfjalli og ofan í Grímsvötn. Að leiðangrinum stóðu vísindamenn frá ETH háskólanum í Sviss og Veðurstofu Íslands, með aðstoð Hjálparsveita skáta í Reykjavík og JÖRFÍ félaga. Síðastliðin ár hefur orðið bylting í jarðskjálftafræði þar sem sýnt hefur verið fram á hvernig nýta má ljósleiðara til að mæla jarðskjálfta í miklu hærri upplausn en áður. Aðferðin notar ljósleiðara ásamt sérútbúinni tölvu sem sendir laserpúlsa í gegnum ljósleiðara og nemur endurkast frá þeim. Í Grímsvatnaverkefninu, sem kallað hefur verið DAS-BúmmBúmm, voru gerðar mælingar á 8 m fresti í ljósleiðaranum, eða í heildina um 1550 mælingar (15 sinnum fleiri en allir jarðskjálftamælar á Íslandi!). Auk þess að mæla margfalt fleiri smáskjálfta en sjást í hefðbundnum mælingum, sýndi tilraunin t.a.m. samfelldan titring á þeim hluta ljósleiðarans sem lá ofan á íshellu Grímsvatna. Í fyrirlestrinum verður sagt frá leiðangrinum og fyrstu niðurstöðum gagnaúrvinnslunnar.

Kristín Jónsdóttir er jarðskjálftafræðingur og hópstjóri Náttúruvárvöktunar Veðurstofu Íslands og Sölvi Þrastarson er í doktorsnámi í jarðskjálftafræði við ETH í Zurich í Sviss.

Vísindatímaritið Jökull: Frá 1951 hafa birst yfir 400 ritrýndar vísindagreinar í Jökli. Ritið er því stærsta safn fræðigreina sem til er um jarðfræði Íslands og hefur mikla þýðingu fyrir jarðvísindi hér á landi. Undanfarið ár hefur verið unnið að því að koma Jökli í rafrænt form með þróun heimasíðu sem gerir notendum kleift að leita í greinasafninu eftir ýmsum leiðum.