Afmæliskveðja – 22. nóvember 2020 – 70 ár frá stofnun JÖRFÍ

Vegna strangra samkomutakmarkana hefur félagið þurft að fresta mestallri afmælisdagskrá. Þess vegna er til kominn þessi fátæklegi pistill hér á vefsíðu félagsins.  Opnun sýningar í Perlunni í samvinnu við Náttúruminjasafn Íslands er frestað fram á næsta ár.  Árshátíð er einnig frestað; vonandi verður hægt að halda hana í mars á næsta ári.  Þrátt fyrir covid höfðum við vonast til að geta sent út á vefinn dagskrá á sjálfan afmælisdaginn, sunnudag (22. nóv.) en strangari reglur sem settar voru um daginn gerðu þær vonir að engu.   Sú eina dagskrá sem hægt hefur verið að halda úti, röð netfyrirlestra, hefur tekist mjög vel og aðsókn framar björtustu vonum.  

Það er margs að minnast og margt að gleðjast yfir þegar horft er yfir 70 ára sögu.  Félagið sinnir sporðamælingum, stendur fyrir vorferðum og mælingum á afkomu á Mýrdalsjökli.  Það á skála á sex stöðum á og við Vatnajökul og einn á Langjökli.  Jökull hefur komið út jafnlengi og félagið hefur starfað.  Ekkert af þessu gerðist af sjálfu sér.  Fólkið í félaginu hefur unnið þessi störf og notar til þess frístundir sínar.  Þetta öfluga starf og stór þáttur áhugafólks vekur athygli út fyrir landsteinana.   

Stofnfundur JÖRFÍ var haldinn fimmudaginn 22. nóvember 1950. Stofnfélagar voru 52 og eru enn tveir þeirra á lífi, báðir heiðursfélagar JÖRFÍ, þeir Haukur Hafliðason og Ólafur Nielsen.  Félagið óx hratt og dafnaði.  Árið 1960, á 10 ára afmælinu hafði félagið hafði byggt skála á Breiðamerkursandi, í Esjufjöllum, í Jökulheimum og á Grímsfjalli.  Reglulegar vorferðir hófust 1953 og mikill árangur náðist á þessum fyrstu árum í rannsóknum, einkum á Vatnajökli og í Grímsvötnum.   Alla tíð hefur kjarni félagsins verið þéttur hópur áhugafólks og vísindamanna.  Félagið hefur notið velvildar og stuðnings stofnana og fyrirtækja, ýmist með fjárframlögum eða vinnuframlagi.  Hér má einkum nefna Landsvirkjun, Vegagerðina, Raunvísindastofnun – síðar Jarðvísindastofnun Háskólans, Veðurstofu Íslands,  Neyðarlínuna og Almannavarnir.  Starf félagsins skiptir máli fyrir alla þessa aðila enda eru sum markmiðin sameiginleg.  

Engin leið er í stuttum pistli að gera skil þeim ávinningi sem starf félagsins hefur skilað.  Fyrir utan það sem nefnt er hér að ofan má nefna að sumarið 1972 bar félagið hitann og þungann af flutningum og vinnu við borunina í Bárðarbungu, en það verkefni var mikið afrek.  Fimmtán árum síðar, vorið 1987, var nýi skálinn fluttur á Grímsfjall.  Tilkoma hans og vélageymslunnar sjö árum síðar gjörbreytti aðstöðu til rannsókna og ferðalaga um Vatnajökul.  Þar er nú miðstöð vöktunar á eldstöðvum í Vatnajökli, en umbrot í þeim hafa séð vorferðum fyrir ærnum verkefnum síðasta aldarfjórðunginn. 

Án félagsfólks væri ekkert Jöklafélag.  Þó flest frestist nú vegna óviðráðanlegra aðstæðna hafa hópar félaga lagt mikið á sig vegna 70 ára afmælisins.  Nefnd um afmælissýningu undir forystu Hrafnhildar Hannesdóttur hefur unnið mikið og gott starf og það verður gaman að sjá afraksturinn.  Sama gildir um nefnd um afmælisárshátíð þar sem Steinunn Jakobsdóttir er formaður.  Skálanefndin undir forystu Sverris Hilmarssonar hefur átt annasamt ár, ekki síst við að halda rafstöð á Grímsfjalli gangandi.  Rafstöðin í vélageymslunni er orðinn ómissandi hlekkur í viðbúnaðarkerfi landsins.  Án hennar myndi  margvíslegur búnaður sem vaktar Grímsvötn og aðrar eldstöðvar í Vatnajökli stöðvast.  Bílanefndin undir forystu Sigurðar Vignissonar sér til þess að Jöklarauður sé jafnan til í slaginn þegar á þarf að halda í viðhalds- og rannsóknarferðir.  Bryndís Brandsdóttir hefur nú verið aðalritstjóri Jökuls í tæplega 30 ár, lengur en nokkur annar.  Það er ánægjulegt að starfa í svona breiðum og öflugum hópi.  Þessi hópur sameinast í áhuga á jöklunum og því sem undir þeim leynist.  En kannski er það heimur jökulsins, fegurðin sem þar ríkir og sú samheldni og vinátta sem skapast í góðum hópi sem dregur okkur áfram.  Jöklabakterían.  Ólíkt þeirri illræmdu kóvid farsótt sem nú heldur öllu í heljargreipum er jöklabakterían góðkynja og engin þörf á bólusetningu.  Það eina sem þarf er að fara öðru hverju á jökul.   

Við náum ekki að hittast á afmælisdaginn.  En við getum hvert á sínum stað sungið ljóð Magnúsar Jóhannssonar sem er öllum jöklaförum kært: 

Gaman er í Grímsvötnum á Kraka. 
Gista hlýjan skála tindi á. 
Og líða á skíðum leiðina til baka
ljúfan koss í Jökulheimum þrá. 

Vatnajökull veitir gestum sínum
veislukost af gleði og rómantík.
Og hann mun betur svala sorgum þínum 
en seta knæpum niðri í Reykjavík.

Að lokum er vert að vekja athygli á hinum vel heppnuðu viðtalsþáttum um félagið sem Anna Marsbil Klausen hefur verið með í útvarpinu undanfarna sjö fimmtudaga.  Það er hægt að hlusta alla þættina í sérstöku hlaðvarpi á vef RÚV:

https://www.ruv.is/utvarp/spila/alltaf-gaman-ad-godu-basli/31167?fbclid=IwAR03-DDLuEckAehoc-chKKyjDHq5cvtDNUx3yQK4m7v33Tre4EKprnaouG0

Að þessu sögðu óska ég félaginu og okkur öllum til hamingju með daginn. 

Magnús Tumi Guðmundsson, formaður JÖRFÍ 

Magnús Hallgrímsson – Jarðarför

Magnús Hallgrímsson, heiðursfélagi og varaformaður JÖRFÍ til margra ára, lést 88 ára gamall þann 8. nóvember síðastliðinn.  Jarðarför hans er frá Fríkirkjunni í dag, 18. nóvember kl. 13.  Beint streymi frá jarðarförinni  má sjá hér:https://youtu.be/KxMixDhARJg
eða hér:rb.gy/oxxkil

Jöklarannsóknafélagið þakkar Magga Hall fyrir áratuga framlag og vottar fjölskyldu hans samúð.

Maggi Hall í Grímsvötnum í vorferðinni 2013, fimmtíu árum eftir að hann fór sína fyrstu vorferð.

Fyrirlestur Finns og Þorsteins 17.11.

Þriðjudaginn 17. nóvember næstkomandi kl. 20:00 munu Finnur Pálsson (Jarðvísindastofnun Háskólans) og Þorsteinn Þorsteinsson (Veðurstofu Íslands) flytja erindi sem ber titilinn Afkoma jökla á Íslandi. Eins og áður verður erindið flutt rafrænt en hlekkurinn á streymið opnar kl. 19:45 á https://eu01web.zoom.us/j/62587026560

Ágrip fyrirlestursins Afkoma jökla á Íslandi

Afkoma jökuls segir til um hvort jökullinn rýrnar eða eykst að rúmmáli á tilteknu ári eða yfir lengra tímabil. Að vetri safnast snjór á jökulinn en að sumri bráðnar ís og snjór, afkoman er jákvæð ef massi vetrarsnævar er meiri en sá massi sem hverfur við leysingu sumarið á eftir. Afkoman ræðst einkum af veðurþáttum og landslagi.
Fyrstu mælingar á jökulafkomu hérlendis voru gerðar í sænsk-íslensku leiðöngrunum á Vatnajökul 1936-38. Frá stofnun Jöklarannsóknafélags Íslands 1950 hefur vetrarafkoma í Grímsvötnum verið mæld í vorferðum félagsins og sumarleysing einnig frá 1992. Ennfremur var vetrarafkoma (og stundum einnig sumarafkoma) mæld óreglulega á allmörgum stöðum á jöklum landsins á seinni hluta 20. aldar.
Árlegar afkomumælingar hófust á  Hofsjökli (1988), á Vatnajökli (1991) og á Langjökli 1997. Árlega hefur einnig verið mælt á Mýrdalsjökli frá 2007 og á Drangajökli var mælt árin 2005-2016. Á hverjum þriggja stærstu jöklanna er afkoma mæld á 25-70 föstum stöðum. Borað er í gegnum vetrarlagið að vori með snjókjarnabor og gufubor nýttur til að bora fyrir leysingarstikum eða vírum, sem lesið er af að hausti. Á síðustu árum hafa samfelldar sniðmælingar á snjóþykkt með radar (snjósjá) aukið þekkingu á dreifingu snævar á jöklunum og bætt nákvæmni í mati á vetrarafkomu.
Til að meta afkomu yfir lengri tímabil eru notuð hæðarlíkön byggð á flugljósmyndum, gervitunglagögnum og öðrum fjarmælingum. Mismunur á rúmtaki hæðarlíkana frá upphafi og lokum tiltekins tímabils gefur nákvæma rúmmálsbreytingu og styður við hinar hefðbundnu mælingar á afkomu.
Þekking sú sem aflað hefur verið um afkomu jökla á Íslandi frá aldamótunum 1900 og viðbrögð þeirra við loftslagsbreytingum var nýlega tekin saman til birtingar í vísindatímariti.  Sú grein er nýjasta framlag íslenskra vísindamanna til alþjóðlegs heildarmats á rýrnun jökla um jörð alla og hækkun sjávarborðs af þeim völdum.

Myndband af fyrirlestri Helga Björnssonar