Fyrirlestur Snævarrs þriðjudaginn 29.9

Fjarfundur JÖRFÍ þriðjudag 29. september kl. 20-21:
Snævarr Guðmundsson – fyrirlestur JÖRFÍ: Í spor jöklamælingamanna á Breiðamerkursandi
Aðgangur opnar kl. 19:45.


Smellið á hlekkinn og fylgið leiðbeiningum inn á fundinn:
https://eu01web.zoom.us/j/64783134585?pwd=bDFqWXJDanRNM0V3ZEI4T1RESnp3dz09

Ágrip fyrirlestursins Í spor jöklamælingamanna á Breiðamerkursandi:

Í þessu erindi mun Snævarr Guðmundsson segja frá kortlagningu sinni á hopi Breiðamerkurjökuls, frá því að jökullinn var í hámarksstöðu í lok  19. aldar. Fyrsta nákvæma kortið af jöklinum var unnið af danska herforingjaráðinu í byrjun 20. aldar, en þá var Breiðamerkurjökull örlítið tekinn að hopa. Næst var svæðið kortlagt eftir loftmyndum sem ameríski herinn tók á árunum 1945-6 en á þeim tíma hafði jökullinn hopað talsvert á þeim fjóru áratugum sem liðið höfðu frá því að herforingjaráðskortin voru gefin út. Nokkru fyrr, eða á fjórða áratugnum fóru menn að fylgjast skipulegar með framvindunni og þá hófust m.a.sporðamælingar. Þeim hefur verið viðhaldið fram til okkar daga. Hop jökulsins, og Breiðamerkursandur var kortlagður nokkrum sinnum á 20. öld. Þessar kortlagningar byggðu á viðurkenndum aðferðum og fáanlegum gögnum á hverjum tíma. Margar af þeim, sérstaklega eftir miðja 20. öld, byggðu á loftmyndum. Nákvæmni korta batnaði því sífellt eftir því sem leið á öldina en á sama tíma var jökullinn alltaf að hopa. Í hverju nýju korti birti því land sem hafði komið undan hopandi jökli, og í sífellt skýrari dráttum. Árin 2010-2012 var Vatnajökull skannaður með leysigeislatækni (LiDAR) en afar lítil óvissa er í þeim gögnum, samanborið við fyrri aðferðir. Út frá ofangreindum upplýsingum gögnum, auk ýmissa annarra, t.a.m. gervitunglamyndum, ljósmyndum teknum í flugi eða af landi, frásögnum, rituðum heimildum og sporðamælingagögnum Jöklarannsóknafélagsins hefur hop Breiðamerkurjökuls nú verið rakið ítarlega á stórum svæðum. Í erindinu verður m.a. sagt frá þýðingu sporðamælinganna við að rekja þá atburðarás.

Fyrirlestraröð JÖRFÍ

Fyrirkomulagið verður eftirfarandi:  

  • Ágrip/stutt kynning á efninu og flytjandanum mun fara á vefsíðuna nokkrum dögum fyrir fund.   
  • Vefslóð inn á fyrirlesturinn verður sett á vefsíðu JÖRFÍ kvöldið áður en fundurinn fer fram.   
  • Fundur hefst stundvíslega kl. 20:00 á fundardaginn. 
  • Hver fyrirlestur verður 30-45 mínútur. 
  • Í kjölfarið koma umræður og fyrirspurnir áheyrenda og fyrirlesari svarar. 
  • Tilkynningar um ágrip og áminningar um fundi verða sendar í tölvupósti til félagsfólks. 

Vilji fólk kaffi og kökur þarf hver og einn að sýna þá fyrirhyggju að fá sér slíkar veitingar heima, enn hafa ekki fundist aðferðir til að senda matvæli með tölvupósti. 

Stjórn JÖRFÍ