Ferðin í Holuhraun og Öskju 7.-9. ágúst

Enn eru nokkur pláss laus. Áætlað er að fólk mæti á Mývatn á fimmtudagskvöldinu 6. ágúst. Farið verður í rútu úr Mývatnssveit á föstudagsmorgni. Gist verður í skála og tjöldum í Herðubreiðarlindum í tvær nætur. Áætlað er að fara einn dag að nýja hrauninu og annað daginn að svipast um í Öskju, en þar varð mikið berghlaup í júlí á síðasta ári. Á flæðunum sunnan Öskju verður nýja hraunið skoðað en það er það stærsta sem myndast hefur á Íslandi síðan í Skaftáreldum. Það teygir sig yfir 18 km frá gígunum langleiðina austur að Svartá. Upp úr hrauninu stíga gufumekkir þar sem það rann yfir lindasvæði og undan jaðrinum renna volgir lækir. Í ferðinni verða þessir staðir skoðaðir og hugað að gígum, hraunbrúnum og spáð í hvernig svæðið muni þróast eftir þessar miklu landbreytingar. Fararstjóri er Magnús Tumi Guðmundsson.

Við munum gista í Herðubreiðarlindum. Nokkur pláss eru laus í skála en aðrir munu gista í tjöldum. Þáttökugjald er 15.000 kr. en það rennur upp í kostnað við rútuna, kol í sameiginlegt grill seinna kvöldið. Skála og gistigjöld borgar hver fyrir sig. Þeir sem vilja vera í skála eru beðnir að láta vita, því aðeins er pláss fyrir hluta hópsins í húsi. Hver kemur með sitt nesti, m.a. eitthvað á grillið á laugardagskvöldinu. Þeir sem ekki hafa þegar tilkynnt þátttöku geta gert það á fyrir föstudag 24. júlí með tölvupósti (mtg hjá hi.is eða thorakarls hjá gmail.com).

ferðanefndin

Sumarferðir JÖRFÍ í júlí og ágúst

Sumarferð
Um næstu helgi, 3.-5. júlí, verður sumarferð JÖRFÍ farin í uppsveitir Borgarfjarðar. Tjaldað verður á föstudagskvöldi í Hringsgili í landi Húsafells. Veðurspá er hagstæð en snjóalög á Ok-inu og ófærð á Kaldadal koma í veg fyrir fyrirhugaða Ok-göngu. Fararstjóri ferðarinnar, Þorsteinn Þorsteinsson mun þess í stað leiða gönguferð um aðrar slóðir á laugardegi og svo verður farið í Víðgelmi á sunnudagsmorgni (kr. 3.000,-). Verið er að athuga með mögulega skoðunarferð í ísgöngin í Langjökli en það er enn óljóst. Vinsamlegast tilkynnið um þátttöku með tölvuskeyti til Hálfdáns Ágústssonar í netfanginu: halfdana hjá gmail.com.

Ágústferð
Þeir sem ætla að taka þátt í skemmtiferð JÖRFÍ í ágúst að Dyngjusandi þurfa að skrá sig við fyrsta tækifæri, og í síðasta lagi fyrir miðvikudaginn 8. júlí. Ef næg skráning fæst verður farið í rútu frá Mývatnssveit en annars verða ferðaplön með öðru sniði. Að öðru leyti er vísað í fyrri auglýsingu:

Jöklarannsóknafélagið fer 7.-9. ágúst í skemmtiferð inn á Dyngjusand að skoða nýja hraunið norðan Vatnajökuls. Ferðalangar munu hittast í Mývatnssveit og fara þaðan í rútu að morgni föstudags en komið verður aftur tilbaka á sunnudegi. Gert er ráð fyrir að gista í Herðubreiðarlindum og þaðan verður haldið í skoðunarferðir um nýja hraunið og Öskju. Nánari upplýsingar berast síðar, þ.m.t. varðandi kostnað og aðra tilhögun. Magnús Tumi verður fararstjóri ferðarinnar en Þóra Karlsdóttir svarar fyrirspurnum og tekur við skráningum í síma 8663370 og í netfanginu: „thorakarls hjá gmail.com“.