Doktorsvörn félaga í JÖRFÍ

Næstkomandi mánudag ver Hrafnhildur Hannesdóttir doktorsritgerð sína í jarðfræði við Háskóla Íslands. Verkefnið ber heitið: Breytingar á suðaustanverðum Vatnajökli – í fortíð, nútíð og framtíð (Variations of southeast Vatnajökull – past, present and future). Hrafnhildur er félagi í Jöklarannsóknafélagi Íslands og hefur m.a. tekið þátt í nokkrum vorferðum félagsins og setið í skemmtinefnd. JÖRFÍ og nokkrir félagar þess aðstoðuðu Hrafnhildi í hluta vettvangsrannsókna hennar, m.a. í vorferðum og í jöklagöngum þar sem leitað var ummerkja um mestu útbreiðslu skriðjökla í suðaustanverðum Vatnajökli.

Vörnin hefst kl. 9:00 mánudaginn 3. nóvember og andmælendur eru dr. Per Holmlund, prófessor við Stokkhólmsháskóla og dr. Astrid Ogilvie, Nansen-gestaprófessor í heimskautafræðum við Háskólann á Akureyri, vísindamaður við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og vísindamaður við Institute of Arctic and Alpine Research (INSTAAR). Dr. Hreggviður Norðdahl, fræðimaður og staðgengill deildarforseta Jarðvísindadeildar, stjórnar athöfninni sem fram fer í Hátíðasal Háskóla Íslands.

Leiðbeinendur Hrafnhildar voru dr. Helgi Björnsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans og dr. Guðfinna Aðalgeirsdóttir, dósent við Jarðvísindadeild, en einnig sat í doktorsnefnd dr. Jón Eiríksson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans.

Nánar um vörnina á vef Háskóla Íslands.

Haustfundur og nýtt fréttabréf

Haustfundur Jöklarannsóknafélags Íslands verður haldinn næstkomandi þriðjudag, 21. október í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskólans. Á fundinum flytja Kristín Jónsdóttir og Guðrún Larsen erindi um vöktun umbrotana við Bárðarbungu og eldgosasögu Bárðarbungukerfisins. Nánar um fundinn í nýútkomnu fréttabréfi JÖRFÍ sem aðgengilegt er hér á vef félagsins: „Fréttabréf október 2014“.

Haustráðstefna JFÍ og JÖRFÍ 22. nóvember 2014

JÖRFÍ tekur nú höndum saman við Jarðfræðafélag Íslands um haustráðstefnu um ríki Vatnajökuls. Um er að ræða heilsdagsráðstefnu, frá kl 09:00 til 17:00, en skráning verður frá klukkan 8:30. Auglýst er eftir ágripum erinda og veggspjalda og tilkynningu um þátttöku.

Ráðstefnan verður haldin í sal N-132 í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands laugardaginn 22. nóvember og í ár verður þema hennar eftirfarandi:

Hvað er að gerast í ríki Vatnajökuls?

Fyrirlesurum er frjálst að fjalla um atburði og rannsóknir innan Vatnajökulsþjóðgarðs en áhersla verður lögð á umbrotin í Bárðarbungu og gosið í Holuhrauni auk þeirra atburða sem urðu í Öskju í júlí. Vonast er til þess að á ráðstefnunni takist að draga fram sem heilsteyptasta mynd af atburðunum, bakgrunni þeirra og mikilvægi til frekari skilnings á jarðskorpuhreyfingum, gliðnunarhrinum, eldgosum, öskjum í megineldstöðvum, umhverfisáhrifum eldgosa og gasmengun, svo eitthvað sé nefnt.

Á ráðstefnunni verður Hrefna Kristmannsdóttir heiðruð sérstaklega fyrir framlag sitt til íslenskra jarðfræðirannsókna en hún er sjötug á árinu.

Skráning á ráðstefnuna sendist á Lúðvík E. Gústafsson: (ludvik.e.gustafsson@samband.is)

Hér með er auglýst eftir ágripum erinda, þeir sem eru áhugasamir um að halda erindi á þessari ráðstefnu eru vinsamlega beðnir um að hafa samband við okkur sem fyrst þar sem að tími er takmarkaður.

Skilafrestur ágripa er miðvikudagurinn 12. nóvember klukkan 12:00.
Dagskrá verður auglýst mánudaginn 17. nóvember og hægt verður að skrá sig á ráðstefnuna fram til miðvikudagsins 19. nóvember.

Ágrip mega vera að hámarki 2 bls. með myndum. Titill erindis verði með feitletruðu 16 pt. Arial (Helvetica), nöfn höfunda í Arial 14. pt. og stofnana í Arial 10 pt. Megintexti verði í Times New Roman, 12 pt. með einföldu línubili. Athugið að texti ágripa er ekki prófarkalesinn. Augljósar villur eru leiðréttar við uppsetningu og frágang en að öðru leyti er texti ágripanna og framsetning hans á ábyrgð höfunda. Ágrip skulu vera á íslensku séu höfundar íslenskir, en útlendingum er heimilt að skila ágripi á ensku. Opinbert tungumál ráðstefnunnar er íslenska, en heimilt er að flytja erindi á ensku. Ágrip sendist á Word-formi til Lúðvíks E. Gústafssonar (ludvik.e.gustafsson@samband.is). Aðeins er tekið við ágripum frá þeim sem eru þátttakendur á ráðstefnunni og eru skil ígildi skráningar. Við skráningu þarf að koma fram nafn, heimilisfang, kennitala, greiðandi og hvort viðkomandi er félagsmaður í JFÍ eða JÖRFÍ.

Gert er ráð fyrir að flutningur hvers erindis og spurningar að því loknu taki 20 mín.

Þátttökugjald er 11.000 kr. fyrir félagsmenn, 13.000 kr. fyrir utanfélagsmenn. Áréttuð er samþykkt aðalfundar JFÍ sem heimilar þeim félögum sem eru komnir á eftirlaun að taka þátt í ráðstefnunni án endurgjalds, en þeir greiði fyrir annað sem tengist ráðstefnunni. Þeim er þó að sjálfsögðu boðið upp á kaffi í hléum. Léttur hádegisverður er innifalinn í ráðstefnugjaldi og eru þátttakendur beðnir um að taka fram við skráningu hvort þeir verði í mat.

Stúdentar við HÍ eru hvattir eru til að mæta, þeir þurfa ekki að greiða fyrir ráðstefnuna en nauðsynlegt er þó að þeir skrái sig, hádegisverður er ekki innifalinn fyrir stúdenta.