Sumarferð JÖRFÍ

Minnt er á sumarferð Jöklarannsóknafélagsins helgina 4.-6. júlí nk. Ekið verður í tjaldstað í Reyðarfellsskógi í landi Húsafells að kvöldi föstudagsins. Að morgni laugardags verður raðað í bíla og ekið upp á Kaldadal. Gengið verður frá Kaldadalsvegi upp á Okið og er vegalengdin um 5 km með rólegri hækkun frá 700 m upp í um 1100 m hæð. Staðnæmst verður við Blávatn í toppgíg Oksins og athugaðar leifar Okjökulsins, sem nú er að hverfa. Síðan verður gengið norður af með útsýni yfir innstu byggðir Borgarfjarðar og neðstu tungur Hallmundarhrauns, auk þess sem Eiríksjökull og Langjökull munu blasa við ef vel viðrar. Komið verður í tjaldstað síðla dags og má áætla að gangan verði samtals 18 km. Um kvöldið verður slegið upp grillveislu í tjaldstað. Á sunnudeginum verður ekin fáfarin jeppaslóð til vesturs meðfram Reykjadalsá og ef tími vinnst til mætti einnig skoða nýja sýningu um Snorra Sturluson í Reykholti. Fararstjóri ferðarinnar verður Þorsteinn Þorsteinsson en Hálfdán Ágústsson aðstoðar við skráningu: í netfanginu sumarferd(hjá)gmail.com eða í síma 8659551. Frekari upplýsingar birtast hér á vefsíðu félagsins er nær dregur.

Myndin hér að neðan sýnir Oköxlina séða frá Reykholtsdal 1. júní sl. Rauðsgil er fyrir miðri mynd. Allmikill snjór er enn ofan við 500 m hæð og verður fylgst með leysingu á svæðinu á næstu vikum. Ekki er ástæða til að ætla annað en að áætluð gönguleið verði greiðfær orðin snemma í júlí, en líklegt er að ganga þurfi yfir skafla hér og hvar.

Oköxlin séð frá Reykholtsdal 1. júní 2014. Rauðsgil er fyrir miðri mynd.

Oköxlin séð frá Reykholtsdal 1. júní 2014. Rauðsgil er fyrir miðri mynd. Smellið á myndina til að stækka hana.