Sumarferð að Langasjó

Sumarferð Jöklarannsóknafélagsins verður farin að Langasjó 6.-8. júlí eins og áður var auglýst í fréttabréfi félagsins. Lagt verður af stað á hádegi á föstudegi frá Select Vesturlandsvegi og farið á einkabílum, og miðað er við að koma að Langasjó síðla dags. Gist verður í tjöldum við skála Útivistar við Sveinstind en fararstjóri í ferðinni og leiðsögumaður verður Jósef Hólmjárn. Við Langasjó er ýmislegt að skoða og er ætlunin að eyða laugardeginum í gönguferð um svæðið, mögulega um Sveinstind, Fögrufjöll eða útfallið en það ræðst af áhuga. Á sunnudeginum verður ekið í rólegheitum frá Langasjó og staldrað við á áhugaverðum stöðum eins og tími og áhugi leyfir. Skráning í ferðina fer fram á netfanginu: sumarferd@gmail.com, eða hjá Hálfdáni Ágústssyni í síma 8659551. Frekari upplýsingar um dagskrá sumarferðarinnar birtast munu birtast hér á heimasíðu félagsins.

Veður og myndir frá Kverkfjöllum

Í byrjun mánaðar var sett upp vefmyndavél, auk veðurstöðvar norðan við skála Jöklarannsóknafélagsins í Kverkfjöllum. Upplýsingarnar uppfærast á 30 mín fresti og eru aðgengilegar hér. Myndavélin horfir yfir vesturhluta Hveradals þar sem jökulstíflað lón myndast vegna jarðhita en úr því hleypur reglulega. Veðurstöðin er einnig hentug til að gá til veðurs áður en haldið er til göngu um svæðið.

Hér er aðgengilegt myndband sem sýnir 10 daga á vefmyndavélinni í Kverkfjöllum á um 1 mínútu myndskeiði https://vimeo.com/44039559.

Verkefnið er m.a. styrkt af Vinum Vatnajökuls en ýmsir aðrir hafa jafnframt komið að því.

Með kveðju frá Birni Oddssyni