Mælingaferð á Mýrdalsjökul

Félagar úr Jöklarannsóknafélaginu fóru hefðbundna mælingaferð á Mýrdalsjökul á uppstigningardag en ferðinni hafði áður verið frestað vegna veðurs. Veður á jökli var fínt og margir á jökli að sinna mælingum, JÖRFÍ við ákomumælingar, Jarðvísindastofnun við íssjármælingar auk veðurfræðinga frá Belgingi við tilraunir með fjarstýrðar mælingaflugvélar. Sem fyrr voru boraðar þrjár ákomuholur og reyndist þykkt vetrarsnævarins yfirleitt yfir meðallagi en enn er þó eftir að reikna úr niðurstöðunum. Í haust verður vitjað um holurnar á ný og þá kemur í ljós hve afkoma jökulsins fyrir þetta ár verður. RÚV var með stutta frétt um ferðina á vef sínum: „http://ruv.is/sarpurinn/frettir/20052012-5“, nærri 11. mínútu.

Jöklarauður á Mýrdalsjökli. Mynd: Valdimar Leifsson

Jöklarauður á Mýrdalsjökli. Mynd: Valdimar Leifsson