Vetrarákoma mæld á Mýrdalsjökli
Á laugardaginn var fór stór hópur jöklamanna á 10 bílum í mælinga- og skemmtiferð á Mýrdalsjökul. Tilgangur ferðarinnar var að bora þrjár afkomuholur og njóta þess jafnframt að vera á jöklinum. Færið neðst á jöklinum var verulega þungt en ofar á honum var færið prýðilegt og ferðin sóttist vel. Veðrið hentaði vel til vinnu en síður til útsýnisferða. Það gekk á með éljum og slyddu en vindur var hægur og góður andi í hópnum. Vel gekk að bora holurnar þrjár og líkt og í fyrra varð sú dýpsta 12 metrar þegar borinn náði loks niður á sumarsnjó síðasta árs. Hinar tvær holurnar voru 9 og 10 m á dýpt.
Jöklarannsóknafélagið við mælingar á Mýrdalsjökli